Tilhögun þingfundar

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 10:35:50 (6524)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

tilhögun þingfundar.

[10:35]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Vegna síðustu orða hæstv. forseta vil ég taka fram að þingflokksformenn þurfa að fá upplýsingar á þingflokksformannafundum um þá hluti sem hér eru til umfjöllunar. Ef haldið er samgönguþing, sem gert er ráð fyrir að þingmenn úr samgöngunefnd sitji, á sama tíma og verið er að setja á dagskrá málefni samgönguráðherra — það er ekki hægt að gera þá kröfu til þingflokksformanna að þeim sé það kunnugt. Það verður að vera í verkahring stjórnar þingsins að upplýsa um slíka hluti og tryggja að slíkir árekstrar verði ekki.

Það hefur ekki verið borið undir þingflokksformenn hvort vera eigi lengdir fundir í dag eða ekki. Ég legg því til að hæstv. forseti kalli þingflokksformenn saman og ræði þetta á þeim vettvangi, hvort fundur verður lengdur eða ekki en beri það ekki undir atkvæðagreiðslu allsendis óundirbúið. Engir þingmenn gerðu ráð fyrir því fyrir fram að hér yrði lengdur fundur enda hafði það ekki verið rætt á síðasta fundi þingflokksformanna.