Auglýsingar sem beint er að börnum

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 10:56:33 (6537)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

auglýsingar sem beint er að börnum.

[10:56]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku kynnti menntamálaráðuneytið á málþingi nýja sjónvarpstilskipun Evrópusambandsins sem okkur ber að lögfesta líklega næsta vetur. Samkvæmt henni ber okkur að herða reglur um auglýsingar á óhollustu sem beint er að börnum en Ísland er með mun slakari eða vægari reglur en nágrannalönd okkar um auglýsingar sem beint er að börnum. Á kynningunni kom fram að stór hluti auglýsinga í kringum barnatíma eru auglýsingar á skyndibita, sykruðum vörum og óhollustu og eru þessar óhollustuauglýsingar mun algengari í ríkissjónvarpinu en á Stöð 2.

Nágrannalönd okkar hafa verið að taka á þessum málum vegna síaukinnar offitu barna. Bretar banna t.d. með lögum óhollustuauglýsingar sem beint er að börnum en þar er offita einna mest af nágrannalöndum okkar. Við Íslendingar erum á svipuðu róli og Bretar og spár eru um verulega versnandi ástand ef ekkert verður að gert. Svíar og Finnar banna slíkar auglýsingar og Danir eru með mjög miklar takmarkanir á þeim.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup sem gerð var fyrir menntamálaráðuneytið kemur fram að þátttakendur í skoðanakönnuninni voru langflestir mjög andvígir því að leyfa að auglýsingum sé beint að börnum. Það kom einnig fram á málþinginu að útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins sagði að það mundi ekki breyta neinu fyrir Ríkisútvarpið þó að það hætti að auglýsa í kringum barnatímana.

Þess vegna spyr ég hæstv. menntamálaráðherra hvort hún sé tilbúin að beita sér fyrir því að Ríkisútvarpið gangi fram með góðu fordæmi og setji sér þá reglu að auglýsa ekki óhollustu á tímum barnaefnis eða á þeim tíma sem gera má ráð fyrir að börn horfi á sjónvarp og að það verði gert nú þegar.