Auglýsingar sem beint er að börnum

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 10:58:37 (6538)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

auglýsingar sem beint er að börnum.

[10:58]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir þessa fyrirspurn og vekja um leið athygli á því málþingi sem við stóðum fyrir í menntamálaráðuneytinu um daginn varðandi nýja tilskipun ESB sem mun snerta m.a. þau málefni sem við munum fjalla um á næsta þingi. Það er ljóst, og ég hef þegar boðað það, að ég mun flytja á haustþingi nýtt fjölmiðlafrumvarp sem fyrst og fremst snertir það innihald sem tilskipun ESB segir til um en það hafa náttúrlega margir mismunandi skoðanir á því sem þar er og þaðan kemur.

Það er rétt að m.a. voru teknar fyrir á málþinginu auglýsingar sem beinast að börnum og þá sérstaklega auglýsingar á óhollustuvörum sem beinast að börnum. Það er skoðun mín og ég mun ekki hafa það þannig í því nýja fjölmiðlafrumvarpi sem mun líta dagsins ljós að það verði beint lagaákvæði um að banna auglýsingar gagnvart börnum. Ég mun ekki beita mér fyrir því heldur miklu fremur láta fjölmiðlunum það eftir að móta sínar eigin reglur, m.a. með tilliti til þeirra sjónarmiða sem snerta börn og þeir verða þá sjálfir að taka af skarið.

Það kom m.a. fram á þessu þingi að 365 miðlar ætla ekki að breyta þessum reglum hér sér en síðan gildir auðvitað annað um Ríkisútvarpið. Við vitum það, m.a. í ljósi þeirra umræðna sem við höfum svo átt á hinu háa Alþingi, að þær leiðir sem við höfum gagnvart Ríkisútvarpinu eru þær að við getum beitt okkur m.a. í gegnum samninginn. Ég vil taka það fram að sá samningur sem er á milli Ríkisútvarpsins og menntamálaráðuneytisins kveður á um það að Ríkisútvarpið eigi að huga sérstaklega að því hvernig auglýsingar eigi að vera í kringum barnatíma.

Ég mun taka þetta mál upp og ræða það við útvarpsstjóra þegar við förum yfir samninginn en engu að síður er grundvöllurinn og endapunkturinn alltaf sá að að við eigum að treysta foreldrunum, fjölskyldunum í landinu til þess að meta hvað er best fyrir börnin þeirra.