Auglýsingar sem beint er að börnum

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 11:00:42 (6539)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

auglýsingar sem beint er að börnum.

[11:00]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og er sammála henni í því að lagasetning er auðvitað síðasta úrræði ef menn grípa ekki til annarra ráða. Ég legg líka áherslu á það að auðvitað er ábyrgð foreldranna mest en ábyrgð samfélagsins er líka mikil. Þess vegna tel ég það mjög áríðandi og hvet hæstv. ráðherra til að taka af festu á þessu í samningnum við Ríkisútvarpið.

Ég sá í Morgunblaðinu í morgun að talsmaður neytenda og umboðsmaður barna gera ráð fyrir að fram muni koma fortakslaust bann á auglýsingum sem beint er að börnum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái það fyrir sér að fortakslaust bann á auglýsingum sem beint er að börnum sé fram undan hjá okkur. Ég hvet sem sagt hæstv. ráðherra til að taka á þessum málum og vonast til að Ríkisútvarpið taki á málum fljótt og helst að tilkynna það í dag á aðalfundi sínum að það muni ekki auglýsa í kringum barnatíma eða beina auglýsingum að börnum.