Vegalög

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 11:03:02 (6541)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

vegalög.

[11:03]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur viðrað það viðhorf sitt, bæði í umræðum á Alþingi og svo ítrekað í viðtali við Kastljós í síðustu viku, að hann geti ekki tekið afstöðu til tiltekinna samgöngumála á þeim grundvelli að hann kunni að þurfa að úrskurða í hugsanlegum deilumálum á síðari stigum. Hér ber ráðherrann fyrir sig vegalögin og ákvæði 28. gr. þar sem segir að ef ágreiningur rís milli Vegagerðar og sveitarstjórnar um legu vegar skuli skjóta þeim ágreiningi til ráðherra.

Nú hefur þessu ákvæði aldrei verið beitt og ég tel ekki líklegt að núverandi hæstv. samgönguráðherra sem nýlega hefur tekið við málefnum sveitarfélaganna einnig muni ríða á vaðið hvað það varðar og beita þessu ákvæði. Hins vegar er ekki hér um að ræða venjulegan stjórnsýsluúrskurð eins og á t.d. við ef skipulagsákvörðun eða umhverfismat eru kærð. Hér er einungis um það að ræða að ráðherra höggvi á hnútinn ef aðilar máls, þ.e. Vegagerð og sveitarfélög, eru ekki ásáttir um legu tiltekins vegar. Að halda því fram að ráðherra geti ekki haft afstöðu í tilteknum málum eins og t.d. gagnvart Sundabraut eða vegi um Hornafjarðarfljót er ekkert annað en fyrirsláttur að mínu mati. Eða hvernig getur ráðherrann ákveðið fyrir fram um hvaða vegspotta verði hugsanlega ágreiningur á síðari stigum? Eigi þessi röksemd að halda verður hann einfaldlega að segja sig frá öllum slíkum ákvörðunum. Nei, ráðherrann er að koma sér undan því að taka pólitíska afstöðu í málum sem miklu varða í málaflokki hans og það er hreinlega ekki hægt að sætta sig við það.

Hvað Sundabraut varðar þá liggur fyrir afstaða borgarstjórnar Reykjavíkur. Það er ljóst að hún er mikið hagsmunamál, ekki bara höfuðborgarsvæðisins heldur skiptir hún miklu um samgöngur milli borgarinnar og vestur og norður um land sömuleiðis. Ég tel því brýnt að samgönguráðherra komi úr felum og greini frá sýn sinni á málið. Er hann sammála hv. formanni samgöngunefndar Alþingis, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur alþingismanni, og formanni samgönguráðs, borgarfulltrúanum Degi B. Eggertssyni um að leggja beri Sundabraut í göng milli Gufuness og Laugarness?