För á Ólympíuleikana í Peking

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 11:10:17 (6545)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

för á Ólympíuleikana í Peking.

[11:10]
Hlusta

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra varðandi fyrirhugaða ferð hennar og annarra ráðamanna á opnunar- og lokahátíð Ólympíuleikanna í Peking sem nú er á næsta leiti. Fjölmargir, og þar á meðal ég, bundu vonir við að staðsetning leikanna í Peking mundi verða til þess að bæta stöðu mannréttindamála í Kína en því miður virðist það ekki vera niðurstaðan nema að litlu leyti.

Samkvæmt alþjóðlegu mannréttindasamtökunum Amnesty International eru Ólympíuleikarnir notaðir til að réttlæta varðhaldsvist án réttarhalda í Peking sem er liður í að hreinsa borgina fyrir ágúst 2008. Á meðan má baráttufólk þola sífellt meiri áreitni, stofufangelsi og ósanngjörn réttarhöld. Við getum ekki gefið alræðisstjórninni í Kína, sem skeytir litlu um mannréttindi þegna sinna, afslátt af þeim grundvallarmannréttindum sem við gerum kröfu til og hver einstaklingur á rétt á að njóta hvar sem er í heiminum. Að mínu mati eigum við Íslendingar, ráðamenn okkar, að ganga fram fyrir skjöldu og taka afstöðu með mannréttindum á móti mannréttindabrotum kínversku alræðisstjórnarinnar og láta ógert að mæta á opnunar- og lokahátíð Ólympíuleikanna og sýna afstöðu okkar í verki. Ef fulltrúar okkar mæta er líklegt að kínversk stjórnvöld túlki það sem viðurkenningu á þeim stjórnarháttum sem viðhafðir eru í Kína.

Það sem skiptir máli er að íslensk stjórnvöld gefi ekkert eftir, hvort sem ráðamenn okkar eru þar í boði íþróttahreyfingarinnar eða kínverskra stjórnvalda. Í mínum huga snýst málið ekki um hver býður heldur fyrir hvað við stöndum sem fulltrúar Íslands á Ólympíuleikunum. Það er hins vegar skiljanlegt að ráðamenn vilji sýna íþróttamönnum stuðning með því að mæta á leikana en það má gera með því að mæta á pallana og hvetja þá þegar þeir keppa í sínum greinum á leikunum. Bæði opnunar- og lokahátíðin eru í boði kínverskra stjórnvalda. Vera ráðamanna okkar þar sendir röng skilaboð. Í beinu framhaldi spyr ég: Hefur hæstv. menntamálaráðherra endurskoðað ákvörðun sína um hvort hún verði viðstödd opnunar- og lokahátíð (Forseti hringir.) Ólympíuleikanna í Kína?