För á Ólympíuleikana í Peking

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 11:12:30 (6546)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

för á Ólympíuleikana í Peking.

[11:12]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Það er rétt að undirstrika að afstaða ríkisstjórnarinnar — og hefur ávallt verið hjá íslenskum stjórnvöldum — er alltaf með mannréttindum og móti mannréttindabrotum, þannig að það komi skýrt fram. Ég veit það að hæstv. utanríkisráðherra hefur rætt m.a. við sendiherra Kínverja á Íslandi og eindregið lýst áhyggjum okkar yfir stöðu mannréttindamála m.a. í Kína, þannig að það sé sagt. Það er engan afslátt verið að gefa af þeirri afstöðu okkar þrátt fyrir að við þiggjum og munum þiggja boð íslensku íþróttahreyfingarinnar sem ég fundaði reyndar með í vikunni. Þar ítrekaði hún eindregið afstöðu sína, að það væri mikilvægt að við sýndum samstöðu með Ólympíuleikunum og íslensku íþróttamönnunum. Ég tel mikilvægt að svo sé gert, enda yfirmaður íþróttamála, og það eru ákveðnar áhyggjur sem ég hef varðandi þá þróun sem menn sjá í tengslum við Ólympíuleikana.

Ég velti því líka fyrir mér á þeim tíma 1980 þegar við sendum fólkið á Ólympíuleikana í Moskvu. Það var engan veginn samþykki okkar á þeim grimmdarverkum sem kommúnistar í Sovétríkjunum frömdu á sínum tíma, það var engan veginn þannig. Ég velti því líka fyrir mér núna þegar vetrarólympíuleikarnir verða í Rússlandi 2014 að vissulega er Rússland lýðræðisríki en það munu koma upp spurningar líka í tengslum við þá Ólympíuleika. Hvað með Tsjetsjeníu? Hvað með ástand mála sem tengjast Rússum á einn eða annan hátt? Ætlum við að fara á þá friðarleika sem Ólympíuleikarnir eru, stundum og stundum ekki? Ég tel mikilvægt að við sýnum fyrst og fremst okkar íslensku íþróttamönnum samstöðu og það er þess vegna sem ég er að fara.