Opinberir háskólar

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 11:34:13 (6553)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[11:34]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er merkilegur málflutningur sem hér er fluttur. Það er ljóst að hér er að birtast í nokkuð brenglaðri mynd en þó er hún að skýrast, hver stefna Frjálslynda flokksins er í þessu máli. Þeir vilja ekki samkeppni, þeir vilja ekki fjölbreytni í háskólastarfi á Íslandi.

Það er alveg rétt, það var pólitískt tekist á um það hvort fylgja ættu jöfn fjárframlög með nemanda hvort sem hann færi í einkaskóla eða sjálfstæðan háskóla eða ríkisháskóla. Það er rétt, þetta er bara pólitík. Þetta er bara spurning um það hvort menn vilja láta jöfn fjárframlög fylgja nemanda hvort sem hann fer í einkaskóla eða ríkisháskóla. Ég segi já, við eigum ekki að segja fólki í hvaða skóla það eigi að fara, fólk á að hafa val, við eigum ekki að miðstýra því úr hvaða ráðuneyti sem við komum.