Opinberir háskólar

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 12:05:48 (6562)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[12:05]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég lít svo á að hv. þingmaður hafi áttað sig á því að ég er ekki að tala um skerðingu til háskólanáms. Ég tala fyrir því að við, þetta ríka samfélag, forgangsraði í þágu menntunar og tryggi það að hér fari enn stærri skerfur af heildarkökunni til menntamála en hefur gerst hingað til.

Í frumvarpi sem ég talaði um í ræðu minni sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lögðum til þá nefndum við Listaháskólann sérstaklega. Við teljum að Listaháskólinn eigi að vera eins og aðrir opinberir háskólar án skólagjalda. Tryggja eigi að hægt sé að kenna listnemum fyrir það framlag sem hið opinbera leggur skólanum til. Ef það er of lágt eins og opinbera framlagið er reiknað núna á að hækka það að okkar mati þannig að við erum ekki að tala um neina skerðingu. Ég lít svo á að hv. þingmaður hafi áttað sig alveg á því.

Varðandi kennsluháskóla og rannsóknarháskóla þá er ég alveg sammála hv. þingmanni um að eru engir háskólar sem ekki hafa rannsóknarskyldur. En ég vil að við áttum okkur líka á því að nýir háskólar verða ekki fullskapaðir á einu ári. Það veit ég líka að hv. þingmaður veit. Það tekur ákveðinn tíma að vinna sig upp í það að verða fullgildur háskóli með fullgilt rannsóknarframlag og ég er sannfærð um að bæði Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn í Bifröst eiga eftir að ná því markmiði sínu en þeir eru á þeirri vegferð núna. Það er ekki hægt að líkja saman rannsóknum þessara nýju háskóla, sem standa sig mjög vel og eru á réttri braut hvað þetta varðar, við rannsóknarþátt Háskóla Íslands. Ég vil því leyfa mér að líta á Háskóla Íslands sem flaggskip æðri menntunar á Íslandi. Þess vegna er ég hlynnt því og sátt við að honum sé umbunað fram yfir þá skóla sem yngri eru af því að aðstaða hans og saga er sú sem ég rakti í fyrr andsvari mínu.