Opinberir háskólar

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 12:28:04 (6567)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[12:28]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel náttúrlega ljóst að ef spurningin er sett upp á þennan einfalda hátt að ef ætlunin væri að auka jafnrétti til náms og að það ætti að gera með hækkun skólagjalda þá væri það nú ekki sú leið sem best dygði til þess. Hún mundi ein og sér ekki auka jafnrétti til náms.

Hins vegar er sérkennilegt ef hv. þingmaður áttar sig ekki á því að þegar þetta mál er skoðað í heild þá hljóti skólagjöldin að koma til umræðu. Ég benti áðan á ágætt svar til hv. þm. Marðar Árnasonar. Þar kemur fram að Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur á tímabilinu frá 2001–2007 lánað 2,6 milljarða kr. Það segir sig sjálft að það hlýtur að koma inn í myndina. Hvernig viljum við hafa það? Við getum nálgast það þannig og spurt: Erum við sátt við skólagjöld í öllu námi sem hér um ræðir? Ég leyfi mér að hafa spurningarmerki við að taka eigi skólagjöld í öllu því námi.

En þá þarf maður að svara því á móti spurningum á borð við: Hvaða peningar koma í staðinn? Þurfum við að taka peningana annars staðar, hugsanlega innan menntakerfisins? Eigum við kannski að skoða hvort vera ættu skólagjöld annars staðar, þar sem þau eru ekki? Ég ætla ekki að útiloka það, sjáið til.

Hins vegar er stefna Samfylkingarinnar afar skýr í þessu, eins og hv. þingmaður áttaði sig á. Við erum hins vegar í stjórnarsamstarfi og það segir sig sjálft að þegar flokkar eru ekki algjörlega sammála í málum þá hljóta þeir að ræða saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Ég segi aftur: Þegar jafnrétti til náms er grundvallaratriðið og fjármagn til menntunar er aukið þá held ég að við hljótum að eiga auðvelt með það í stjórnarsamstarfinu að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Ég trúi því og treysti að við munum með sameiginlegri niðurstöðu auka jafnrétti til náms og auka veg menntunar í landinu. Það er mikilvægast.