Tilhögun þingfundar

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 13:35:29 (6583)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

tilhögun þingfundar.

[13:35]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil bara vekja athygli á því að það eru auðvitað fleiri en ráðherrar sem þurfa að skipuleggja tíma sinn og eins og hér kom fram, m.a. hjá hv. þm. Jóni Magnússyni, er eina ferðina enn verið að snúa dagskránni við í dag. Hæstv. forseti segir að ætlunin sé að halda áfram með mál samgönguráðherra fram eftir degi, síðan taki eitthvað annað við. Mér leikur forvitni á að vita: Eru einhver tímamörk á því hvað hæstv. samgönguráðherra getur verið hér lengi í dag? Er ætlunin að taka síðan mál menntamálaráðherra eða félagsmálaráðherra? Eins og ég segi, það er mikilvægt að það séu aðrir en ráðherrarnir sem hafi ráðrúm til þess að undirbúa sig og þeir sem ætla að tala til að mynda í málum sem eru á vettvangi félagsmálaráðherra þurfa kannski að vita það ef þeirra mál koma hugsanlega fyrr á dagskrá en ætla mætti samkvæmt boðaðri dagskrá. Mér finnst eðlilegt að forseti greini okkur frá því.