Breytt fyrirkomulag á skráningu og þinglýsingu skipa

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 13:43:28 (6588)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

breytt fyrirkomulag á skráningu og þinglýsingu skipa.

521. mál
[13:43]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það frumvarp sem hæstv. samgönguráðherra hefur mælt fyrir, það lætur nokkuð lítið yfir sér. Mig langar þó örlítið að spyrja meira út í nokkur atriði sem hér eru á ferðinni. Fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að hér sé ekki gert ráð fyrir, eins og í því frumvarpi sem lagt var fram um sama efni fyrir þremur þingum síðan, að færsla þinglýsingarbóka skipa og báta verði hjá einu sýslumannsembætti, nefnilega sýslumanninum á Ísafirði.

Það sem mér leikur forvitni á að vita er: Hvaða röksemdir voru þá fyrir því á sínum tíma þegar það var sett inn í frumvarpið? Þekkir ráðherrann þá sögu? Var það hugsanlega meðvituð ákvörðun um að styrkja einhverja starfsemi, flytja störf á landsbyggðina eða eitthvað í þeim dúr? Hafi þau viðhorf verið uppi er mikilvægt að fá það fram hér við þessa umræðu hvaða rök eru þá fyrir því að fallið sé frá því. Eiga þau þá ekki við lengur eða eru einhver önnur sjónarmið sem valda þessari breytingu?

Mig langar líka að spyrja aðeins út í þær breytingar sem gert er ráð fyrir. Hér á að hverfa frá viðmiðuninni um brúttórúmlestir og fara yfir í brúttótonn og er í því sambandi vísað til alþjóðlegra reglna um mælingu skipa. Það er ekki alltaf alveg einhlítt, eins og ég hef skilið málið, hvaða breyting felst í því. Hér er verið að tala um 5 brúttótonn í staðinn fyrir 5 brúttólestir í 10. gr. frumvarpsins og spurningin er þá: Er það t.d. sami fjöldi skipa sem fellur þar undir? Mér þykir sennilegt að það sé ekki þannig. Hvaða áhrif hefur það þá ef t.d. er verið að fjölga skipum sem lenda í þessum lægsta flokki?

Síðan segir í fylgiskjali, kostnaðarmati frá fjármálaráðuneytinu, með leyfi forseta:

„Samkvæmt áætlun Fasteignamats ríkisins er gert ráð fyrir að stofnkostnaður vegna forritunar og aðlögunar á hugbúnaði verði minni háttar. Þá er gert ráð fyrir að innfærsla gagna og rekstur gagnagrunnsins verði borinn uppi með gjöldum á notendur skrárinnar.“

Eru þær gjaldtökuheimildir þá til staðar nú þegar eða hvaða viðbótarálögur er annars um að ræða vegna þessa? Hér gerir kostnaðarmatið beinlínis ráð fyrir því að einhver kostnaðaraukning verði vegna þessara breytinga sem notendur skrárinnar eigi að bera. Hefur ráðherra þá einhverjar upplýsingar um það hversu miklar breytingar eða aukinn kostnað eða gjalda verið er að leggja til í frumvarpinu með þessum breytingum?

Þetta eru bara örfáar athugasemdir, engar stórvægilegar á þessu stigi málsins. Ég held að það sé kannski ekki tilefni til þess heldur þegar málið kemur til umfjöllunar í nefnd. En þetta eru nokkrar athugasemdir við fyrsta yfirlestur sem ég varpa hér inn í 1. umr. um málið.