Fjarskipti

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 14:34:44 (6599)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

fjarskipti.

523. mál
[14:34]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Meginmarkmið þess frumvarps sem hér er lagt fram er að innleiða reglur Evrópuþingsins, nr. 717/2007/EB, þar sem ætlað er að koma á öflugri neytendavernd varðandi reikisamtöl, þ.e. samtöl í GSM-síma á milli landa svo sem kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins.

Þessi reglugerðarsmíð á vegum Evrópusambandsins á sér mjög langan aðdraganda. Í ljós kom að í raun er um að ræða mjög virkt verðsamráð á milli farsímafyrirtækjanna. Fyrirtækin skiptast á gagnkvæmum reikningum vegna reikisímtalanna og þannig sér hvert fyrirtæki fyrir sig hvað hin fyrirtækin taka í afnotagjöld, þ.e. þegar Síminn á Íslandi eða Vodafone á Íslandi gengur frá sínum reikningum þá sjá þeir hvaða gjöld fyrirtækin, t.d. Vodafone á Spáni eða í Austurríki eða hvaða landi svo sem er, taka fyrir þjónustu sína. Það var því í raun vegna svokallaðs „World Roaming“ eða alþjóðavæðingar GSM-netsins um allsherjarverðsamráð allra farsímafyrirtækjanna að ræða. Þar sem þá myndaðist ákveðin samkeppnishindrun og var um virkt verðsamráð að ræða á milli þessara fyrirtækja þá var spurningin hvernig ætti að bregðast við því.

Við miðum við það og við höfum það sem grundvallaratriði í löggjöf okkar að eðlileg samkeppni, virk samkeppni eigi að tryggja hagsmuni neytenda, hún eigi að tryggja að þeir fái betri og hagkvæmari þjónustu, eigi að tryggja að þeir fái lægsta verð sem kostur er þannig að það verði sem best nýting á framleiðsluþáttunum. Það er það sem við miðum við í okkar samkeppnisþjóðfélagi. Það er grundvöllurinn undir samkeppnislögunum, undir lögunum um þá starfsemi sem Samkeppnisstofnun ber að framfylgja. Þarna vorum við komin inn á svið þar sem ekki var hægt að gera þetta vegna þess að símafyrirtækin fylgdust með hvert hjá öðru.

Það var raunar fyrir nokkrum árum íslenskt fyrirtæki sem ungir menn stofnuðu sem gerði tilraun til þess að ná fram ákveðinni breytingu og lækkun á símgjöldum. Um þetta var skrifað í mörg erlend rit, m.a. hið virta rit The Economist á sínum tíma en þar var talað um að hringja frá Stokkhólmi til Lissabon í gegnum Reykjavík. En eins og stundum gerist í markaðssamfélaginu gleypir sá stóri hinn litla og þarna var um að ræða ákveðna hagkvæmni og ákveðna hugmynd sem gerði það að verkum að stóru aðilarnir þurftu að taka tillit til þess og keyptu viðkomandi fyrirtæki út af markaðnum. Þetta var ákveðinn liður í útrás ungra manna sem að sjálfsögðu voru tilbúnir til þess að nýta sér þá hagsmuni sem þeim voru boðnir vegna þess að stóru fyrirtækin vildu kaupa fyrirtækið fyrir miklu hærri fjármuni en þeir hefðu getað ímyndað sér að um væri að ræða.

En þannig hefur þetta verið og virt enskt blað, Sunday Times, birti fyrir nokkrum árum yfirlit yfir það með hvaða hætti farsímafyrirtækin færu að varðandi gjaldtöku. Þar kom m.a. í ljós að jafnvel þó að fólk hafi slökkt á farsímanum sínum og það sé hringt í hann frá Ástralíu þá tekur farsímafyrirtækið gjald af þeim síma sem slökkt er á. Þegar um er að ræða að fólk er að taka á milli í reikisamtölum þá er verið að taka gjald af báðum aðilum, þ.e. bæði þeim sem tekur við símtalinu og þeim sem hringir.

Ódýrasta form á símafjarskiptum er í gegnum „World Roaming“ kerfið eða GSM-kerfið og er mun ódýrara en línutengingarnar. Stofnkostnaðurinn er ákveðinn en þetta er miklu ódýrari símtalaflutningur en í gegnum hið hefðbundna gamla símakerfi. Samt sem áður er verðlagningin á þeirri þjónustu miklu, miklu hærri en á þjónustunni sem kostar miklu meira að veita. Og hvernig stendur á því? Hvernig stendur á því að yfir heiminn hefur það verið þannig að verðþróunin hefur ekki fylgt því, vegna aukinnar hagkvæmni vegna kostnaðarsparnaðar þá hafa neytendur í engu notið þess hagræðis sem um hefur verið að ræða?

Þetta er það sem þeir í Neytendastofnun Evrópusambandsins bentu á, reglulega í langan tíma, að þarna væri um að ræða óeðlilegar samkeppnishindranir varðandi reikisímtöl. Það þyrfti að gera nauðsynlega hluti til þess að koma á ákveðnu hagræði fyrir neytendur til þess að tryggja öflug og góð fjarskipti á góðu og eðlilegu verði.

Það sem sú tilskipun sem hér er verið að tala um að taka upp hefur helst verið gagnrýnd fyrir er að þar sé um að ræða ákveðið ákveðið hámarksverð. Fyrirtækin mega ekki fara umfram það verð sem ákveðið er á reikisímtölum, og hér er verið að leggja til að verði tekið upp, og þá er þetta neyðarráðstöfun vegna þess að markaðurinn virkar ekki.

Ég skil nú ekki af hverju hv. þm. Pétur Blöndal víkur sér úr salnum meðan ég er að tala um það atriði þar sem markaðurinn virkar ekki. Honum hefur kannski orðið illt í maganum við að hlusta á að það væri til samkeppnissvið sem væri þannig að það þyrfti að grípa til ákveðinna ráðstafana af hálfu opinberra aðila til þess að samkeppnin væri hreinlega ekki eyðilögð. Hér erum við einfaldlega að tala um að það er sett hámarksverð.

Það sem þessi tilskipun hefur m.a. verið gagnrýnd fyrir er að við ákvörðun hámarksverðsins sé farið allt, allt of hátt upp, að Evrópusambandið miði við að gjaldtaka á GSM-símtölum sé langt umfram það sem eðlilegt geti talist miðað við þann kostnað sem símafyrirtækin verða fyrir við þá símtalsflutninga eða fjarskiptaflutninga sem um er að ræða. — Ég tel raunar að svo hafi verið.

Ég hef á grundvelli eða vegna þátttöku minnar í neytendastarfi getað fylgst með með hvaða hætti sú tilskipun sem hér er verið að tala um að lögleiða hefur verið að þróast, með hvaða hætti og hvaða afskipti og athugasemdir Evrópusamband neytenda hefur haft af þessum reglum, og Evrópusamband neytenda hefur ítrekað gagnrýnt þetta regluverk á þeim grundvelli að þarna væri verið að gefa of mikið svigrúm, að við mat á hvað væri hámarksverð væri í raun verið að fara allt of hátt með það.

Nú stendur íslenska löggjafarþingið hins vegar frammi fyrir því að samþykkja þær reglur sem þegar hafa verið samþykktar úti í Brussel en við hér á löggjafarþinginu á Íslandi erum að koma að þessu máli í fyrsta skipti núna. Það er ekki eins og þetta mál sé að byrja núna eða hafi verið að byrja í fyrra eða hittiðfyrra, þetta er dálítið eldra, vegna þess að það er töluvert langt síðan menn gerðu sér grein fyrir því að fjarskiptafyrirtækin hafa tekið allt of mikið fyrir þessa þjónustu og verðlagt hana allt, allt of hátt. Þeir sem hafa viljað fylgjast með hafa getað séð hvernig umræðurnar um þetta hafa þróast.

Hins vegar hafa hv. þingmenn á löggjafarþingi Íslands ekki haft neitt með þetta mál að gera fyrr en það er lagt fram í frumvarpsformi sem er út af fyrir sig allra góðra gjalda vert. Þetta frumvarp er allra góðra gjalda vert og þarna er um að ræða virkari neytendavernd en ella væri, og þess vegna er ég samþykkur þessu frumvarpi. Ég vil vekja athygli á því að hvorki við né þeir sem sátu á síðasta þingi eða fyrir síðustu kosningar hafa haft möguleika á því að fylgjast með þeirri þróun sem hefur verið í umræðunni um þessi atriði, um reikisímtölin, um það með hvaða hætti okrað hefur verið á neytendum fram og til baka fyrir þessa þjónustu, og með hvaða hætti og hvernig ætti að þróa viðspyrnu þannig að þetta okur gæti ekki haldið áfram. Það er fyrst og fremst sú viðspyrna sem Evrópusambandið var að setja með reglum nr. 717/2007/EB, þ.e. viðspyrna við okri þar sem ekki var um að ræða að hægt væri að koma við virkri samkeppni.

Við komum hér að málinu án þess að hafa nokkurn tímann getað lagt nokkuð til málanna, lagt nokkuð inn í orðabelginn eða komið að okkar sjónarmiðum varðandi það með hvaða hætti og hvernig þetta regluverk ætti að þróast. Nú er þetta rétt að okkur og sagt: Gjörið þið svo vel, hér er þessi pakki. Ég segi já, ég er tilbúinn til þess að samþykkja hann, hann er tvímælalaust til bóta. En ef við hefðum eitthvað haft um hann að segja á einhverjum öðrum tíma þá kann vel að vera að við hefðum séð ákveðna agnúa eða ákveðna hluti sem til betri vegar hefði mátt færa. Við hefðum kannski getað lagt inn í ákveðin sjónarmið varðandi það að gjaldtakan, þetta hámarksverð sem verið er að ákveða sé í raun allt of hátt því að flutningur í gegnum GSM-netið kostar svo lítið. Þetta er svo einfalt að þetta kostar ekki nema óverulegan hluta þannig að álagið á hvert GSM-símtal á hverja mínútu er mörg hundruð prósent miðað við kostnað viðkomandi símafyrirtækis.

Ég tel því að með því að setja þessa hámarkstaxta á þá sé Evrópusambandið ekki í raun að gera annað en að koma að fyrstu viðvörun til seljanda á þessu sviði um að ekki verði lengur liðið og þeir geti ekki lengur farið fram eins og þeim hentar og okrað á neytendum eins og þeim sýnist.

En það er þó farið mjög vægilega í sakirnar. Það er ekki verið að kreppa að fyrirtækjunum. Það er miklu frekar að þau fái enn um sinn að leika allt of lausum hala. Ég tel að svo hafi verið og á vettvangi Evrópusambandsneytenda, BEUC, hefur meðan á smíði þessarar reglugerðar og þessa regluverks Evrópusambandsins hefur staðið ítrekað verið vakin athygli á því að þarna væri ekki stigið nógu stórt skref til þess að koma í veg fyrir þá óeðlilegu markaðsstarfsemi sem um er að ræða á þessu sviði. En það má kannski segja að mjór sé mikils vísir og hér er lagt af stað í ákveðna vegferð sem er þó góðra gjalda verð.

Um leið og ég lýsi því yfir að ég styð þetta frumvarp og tel það vera framfaraspor vegna samkeppnishindrananna sem eru á þessu sviði þá vil ég ekki láta hjá líða að benda á það að í okkar litla samfélagi þar sem markaðsstarfssemin er iðulega skert, þar sem kostir hins frjálsa markaðar fá ekki að njóta sín til fulls, þar sem um er að ræða samræmdar verðskrár, þó að það sé fyrst og fremst vegna fákeppni, þá mættu íslensk stjórnvöld taka til hendinni og þyrftu ekki ævinlega að bíða eftir því að boð kæmu frá Brussel um það að gæta hagsmuna íslenskra neytenda heldur gætu þau haft forgöngu um að gæta að hagsmunum fjöldans, að hagsmunum hinna mörgu en ekki bara láta þá fáu fara fram að geðþótta.

Ég vil, virðulegi forseti, láta það vera lokaorð mín í 1. umr. um þetta frumvarp að mér finnst þarna vera stigið mjög nauðsynlegt skref þar sem markaðssamkeppnin hefur verið skekkt en íslensk stjórnvöld ættu í fleiri atriðum þar sem markaðssamkeppnin er skekkt og samkeppnisþjóðfélagið virkar ekki að stíga sams konar skref í þeim efnum og gert er í þessu frumvarpi.