Fjarskipti

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 14:49:54 (6600)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

fjarskipti.

523. mál
[14:49]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti frá 2003, með síðari breytingum. Ég vil þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir framsögu hans. Ég get tekið undir fjölmargt af því sem kom fram í máli hv. þm. Jóns Magnússonar. Hann fór mjög rækilega yfir marga þætti þessa máls og margar hliðar þess. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg eins brennandi áhugamaður um að hið frjálsa markaðshagkerfi virki alltaf til hins ýtrasta eins og þingmaðurinn Jón Magnússon, en burt séð frá því held ég að mjög margt af því sem kom fram í máli hans eigi fyllilega rétt á sér. Ég hef a.m.k. tilheigingu til að trúa því og halda að frumvarpið sé flutt í þeim tilgangi að efla vernd neytenda og styrkja möguleika þeirra á því að fylgjast með þeim kostnaði sem þeir verða fyrir vegna talsíma- og farsímaþjónustu eða reikiþjónustu eins og hún heitir nú. Ég held að hér sé verið að stíga skref sem ganga í þá veru að samræma gjaldskrá innan Evrópska efnahagssvæðisins fyrir þá þjónustu sem um er að tefla.

Ég held að það sé rétt sem kom fram áðan að oft sé verið að taka miklu hærri gjöld fyrir þessa þjónustu en nemur raunverulegum kostnaði sem liggur þar á bak við — jafnvel þó að gert sé ráð fyrir eðlilegri arðsemi af þessari starfsemi séu menn að greiða miklu hærri gjöld. Mig furðar, ef það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Jóns Magnússonar, að jafnvel þótt hringt sé í símtæki sem slökkt er á skuli vera tekið gjald fyrir það af því númeri sem hringt er í, (Gripið fram í.) reikisímtal, já. Þetta er ótrúlegt ef satt er og mér finnst eðlilegt að menn skoði frekar hvernig þessu víkur við, hvort þetta er heimilt og hvort hægt er að taka á þessu með einhverjum hætti. Ég held að fæstir geri sér grein fyrir þessu. Ég tek undir það að mikilvægt sé að styrkja og efla stöðu hins almenna borgara, neytanda, í þessu samhengi og það er gert með frumvarpinu sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um fjarskipti.

Ég vil einnig koma inn á það sem enn fremur kom fram í máli Jóns Magnússonar, hv. 10. þm. Reykv. s., þ.e. með hvaða hætti Evrópureglugerðir og tilskipanir ber að íslenskum stjórnvöldum og þá Alþingi sérstaklega þegar um er að ræða að þær kalli á lagabreytingar. Þetta er mál sem hefur komið upp nokkur skipti í vetur þegar mælt hefur verið fyrir frumvörpum og þingmálum þar sem verið er að leiða í íslenskan rétt tilskipanir frá Evrópusambandinu sem falla undir samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Það er augljóst að þetta mál er ekki alveg nýtt af nálinni, þetta er búið að vera nokkuð lengi í undirbúningi, og tilskipun Evrópusambandsins um reiki á almennum farsímanetum er frá árinu 2002, þannig að það var ljóst að þær reglur sem hér eru á ferðinni mundu verða innleiddar í íslenskan rétt. Eins og fram kemur í greinargerð er umrædd reikireglugerð hluti af EES-samningnum samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, um breytingu á IX. viðauka EES-samningsins nr. 143/2007, frá 27. okt. 2007, „með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af IX. viðauka, bókun I, um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans“, eins og segir í greinargerð, með leyfi forseta.

Við höfum fjallað um það fyrr í vetur með hvaða hætti þessar reglur ber að íslenska löggjafarþinginu. Ljóst er að þegar reglur kalla á lagabreytingar á að kynna þær strax á upphafsstigi á þinginu. Settar voru reglur, eins og ég hef áður vitnað til, árið 1994 af hálfu forseta Alþingis, forsætisnefndar, um meðferð EES-mála þar sem gert er ráð fyrir að þau komi á fyrstu stigum til kynningar í utanríkismálanefnd, í viðkomandi fagnefnd og gagnvart þingmannanefnd EFTA. Það er ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá því í október 2007 að þessi tilskipun sé hluti af EES-samningnum.

Ég get upplýst að ég á sæti í þingmannanefnd EFTA. Ég hefði gert ráð fyrir því að mál af þessum toga væru þá kynnt gagnvart þingmannanefnd EFTA. Við höldum reglulega fundi, áttum til að mynda fund í Brussel í október og annan í Strassborg í nóvember um það leyti sem þetta mál er að fara í gegnum sameiginlegu EES-nefndina. Það kom aldrei þar til umfjöllunar, var ekki greint frá því að þetta væri í farvatninu. Það er sem sagt þessi aðferðafræði sem hefur verið viðhöfð sem ég leyfi mér að gagnrýna í störfum þingsins og þetta lýtur auðvitað að því hvernig þingið tekur á þessum málum. Við eigum að vera miklu ákveðnari í því að kalla eftir því að stjórnsýslan komi með þessi mál, sérstaklega þegar um það er að ræða að það kallar á lagabreytingar því að þá hefur væntanlega verið af hálfu Íslands skrifað undir þessar tilskipanir með fyrirvara og hinum stjórnskipulega fyrirvara beitt gagnvart viðkomandi reglum vegna þess að þær kölluðu á lagabreytingar. Ég tel því að það sé mjög mikilvægt — og ég leyfi mér, frú forseti, í hvert skipti sem mál af þessum toga kemur upp að vekja athygli á þessu vegna þess að dropinn holar steininn. Mér finnst mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að það er Alþingi sem fer með löggjafarvaldið, það er Alþingi sem breytir lögum og það er eiginlega ekki hægt að una því að prinsippákvarðanir um lagabreytingar á stjórnsýslustigi séu teknar í einhverjum starfsnefndum á vegum stjórnsýslunnar, framkvæmdarvaldsins, annars vegar hins íslenska eða þeirra landa sem eru EFTA-löndin í EES og stjórnsýslu Evrópusambandsins hins vegar. Þetta vildi ég láta koma fram í umræðu um þetta mál.

Ég hef engar athugasemdir við efnisatriði frumvarpsins, að svo miklu leyti sem ég hef getað farið yfir það, og að svo miklu leyti sem ég, svo að ég sé algerlega heiðarlegur, skil alla þá tækni sem hér er á ferðinni, því að hún er flókin, en ég trúi því að með frumvarpinu sé verið að leita leiða til að efla neytendavernd og til að draga úr kostnaði við reikisímtöl innan Evrópska efnahagssvæðisins og ég tel að það sé jákvætt mál og mikilvægt að það nái fram að ganga. Ég vildi þó ekki láta hjá líða, virðulegur forseti, að vekja máls á því að það er mjög brýnt að við séum okkur meðvituð um þær reglur sem koma yfir okkur frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn og að þær fái efnislega meðferð á undirbúningsstigi af hálfu Alþingis í þeim nefndum sem eiga að fjalla um þessi mál, þ.e. utanríkismálanefnd, viðkomandi fagnefnd og þingmannanefnd EFTA. Þetta vil ég einfaldlega ítreka í umræðu um þetta þingmál.