Viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 15:20:06 (6604)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[15:20]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. samgönguráðherra að mikilvægt sé að við byggjum hér blómlegt atvinnulíf og blómlegt mannlíf um land allt, að hér séu góðar samgöngur, hvort sem það eru hefðbundnar samgöngur eins og vegir, flugvellir, hafnir, eða fjarskipti. Um það held ég að við getum öll verið sammála að sé ákaflega þýðingarmikið. Þess vegna er ég ánægður með þá áherslu sem var t.d. í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2008 hvað samgöngumálin varðar. Þar er lagt fram verulega aukið fjármagn til samgöngumála almennt og ég er sannfærður um að það er skynsamleg ráðstöfun. Hún er kannski ekki síst skynsamleg við þær aðstæður sem blasa nú við í efnahagslífinu þegar fyrirsjáanlegur samdráttur er þar. Það er fyrirsjáanlegt að fyrirtæki muni halda að sér höndum í auknum mæli vegna aðstæðna á mörkuðum, m.a. hvað varðar aðgengi að lánsfé, og við sjáum ef til vill fram á aukið atvinnuleysi á næstu mánuðum og missirum. Þá er skynsamlegt fyrir opinbera aðila eins og ríki og sveitarfélög að blása lífi í glæðurnar, m.a. með fjárfestingu í innviðum í samfélaginu eins og í samgöngum, í menntakerfinu, heilbrigðisþjónustu o.s.frv. Þess vegna held ég að þær áherslur sem hér eru lagðar séu almennt talað jákvæðar.

Hæstv. ráðherra hefur farið yfir þær helstu breytingar sem hann leggur til í viðauka við þessa áætlun og mun hún að sjálfsögðu fá ítarlegri umræðu efnislega í samgöngunefnd. Það eru nokkur atriði sem ég vil þó nefna strax í upphafi. Í fyrsta lagi ætla ég að fara örfáum orðum um hafnarmálin og siglingamálin, um hafnarsjóðina. Bent hefur verið á að m.a. vegna tekjusamdráttar hafnarsjóðanna vegna aflasamdráttar muni ýmsir hafnarsjóðir óska eftir því að fresta framkvæmdum sínum vegna þess að þeir hafa ekki fjárhagslega burði til þess að standa undir framkvæmdum sem þeir hafa verið með í áætlunum sínum. Sannarlega var gert ráð fyrir því að gildistími hafnarlaganna varðandi hlutdeild ríkissjóðs í hafnarframkvæmdum væri framlengdur um tvö ár og hér kemur m.a. fram í greinargerð með tillögunni að einhverjir hafnarsjóðir hafi þegar kosið að nýta sér þá frestun til áranna 2009 og 2010 í staðinn fyrir 2007 og 2008.

Enda þótt ákvörðun hafi verið tekin um að bæta við tveimur árum var það gert fyrst og fremst í ljósi aflasamdráttarins sl. sumar og nú þegar komið er fram á árið 2008 kunna aðrar aðstæður að vera uppi í efnahagslífinu. Hinn almenni samdráttur í efnahagskerfinu getur orðið þess valdandi að við þurfum jafnvel enn að endurskoða þessar tímasetningar. Ég veit það ekki nákvæmlega en þetta er nokkuð sem ég mundi vilja taka upp í umræðum um málið í samgöngunefnd.

Ég ætla að spyrja um það sem kemur hér fram að því er varðar norðaustur/suðvesturflugbraut á Keflavíkurflugvelli. Hér er gert ráð fyrir því að fjármagn komi beint úr ríkissjóði. Ég skil það þá þannig að það fjármagn, 250 millj. kr. framlag vegna norðaustur/suðvesturbrautar á Keflavíkurflugvelli, falli niður í samgönguáætluninni en komi beint úr ríkissjóði. Ég spyr hvort ætlunin sé að koma henni í full not. Það hefur alltaf verið forsenda fyrir því að hægt sé að leggja niður sambærilega braut á Reykjavíkurflugvelli og átti að vera búið að gera fyrir mörgum árum. Er það mál sem sagt í höfn með þessu?

Síðan ætlaði ég að fara aðeins yfir vegamálin. Hér segir að nú liggi fyrir hvernig fjármögnun Vaðlaheiðarganga verði háttað, göngin verði fjármögnuð í einkaframkvæmd með veggjöldum sem standa munu undir helmingi kostnaðar. Hér segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að hluti ríkisins í göngunum greiðist með jöfnum árlegum greiðslum eftir að framkvæmdum lýkur árið 2011 í 25 ár.“

Það sem ég vil spyrja um hér er: Hvernig á þessi einkaframkvæmd að fara fram? Hér er talað um veggjöld. Hæstv. samgönguráðherra sagði það skýrt fyrir síðustu kosningar að það stæði ekki til — eða að hann vildi a.m.k. að Vaðlaheiðargöngin kæmu og það yrði án veggjalda. Hann skar sig úr þingmannahópi, ef ég man rétt, eða a.m.k. oddvitahópi stjórnmálaflokkanna í Norðausturkjördæmi hvað þetta snertir. Núna virðist annað vera uppi á teningnum og þá finnst mér eðlilegt að ráðherrann geri hreint fyrir sínum dyrum. Hann þarf að skýra frá því af hverju hann skipti um skoðun í þessu máli. Fékk hann ekki sitt fram eða breytti hann sjálfur um afstöðu í málinu? Það er mikilvægt að við — og kjósendur í Norðausturkjördæmi — fáum að vita hvernig á þessu stendur.

Síðan er spurningin varðandi þessar einkaframkvæmdir. Hefur ráðherrann mótað einhverja stefnu varðandi einkaframkvæmd í samgöngumálum almennt séð? Það er talað um sérstaka fjármögnun hér við tiltekin verkefni. Það á t.d. við um Suðurlandsveginn, það er þessi sérstaka fjármögnun sem verið er að tala um. Hefur ráðherrann mótað stefnu um það hvernig og í hvaða tilvikum standa á að framkvæmdum með einkaframkvæmd, hverjir eiga að geta tekið þátt í henni? Hefur farið fram þjóðhagslegt hagkvæmnimat á því hvort þessi leið er hagkvæmari en hefðbundin fjármögnun eða jafnvel sérstök lántaka ríkissjóðs til tiltekinna framkvæmda? Ég hef miklar efasemdir um það sjálfur að þetta sé hagkvæm leið. Ég vil alls ekki útiloka hana en ég hef miklar efasemdir um að hún sé hagkvæm fyrir ríkissjóð þegar upp er staðið, sérstaklega þetta með veggjöldin. Er slíkt hugsanlegt annars staðar?

Svo ætla ég að segja hér dálítið um Suðurlandsveginn sem ég veit að er ekki sérstaklega vinsælt. Ég hef miklar efasemdir um að skynsamlegt sé að fara í þessa tvöföldun eins og núna hefur verið ákveðið. Ég er þeirrar skoðunar að umferðaröryggi hefði verið jafnvel tryggt með almennilegum 2+1-vegi og þá er ég ekki að tala um veg eins og er uppi á Sandskeiði sem er í raun allt of mjór og ekki nægilega vel frá honum gengið. Ég á við almennilegan 2+1-veg eins og við þekkjum erlendis frá. Þá hefði að mínum dómi verið hægt að fara í fleiri framkvæmdir og er ég þá að hugsa um leiðina út frá Reykjavík um Vesturlandsveg.

Hér er t.d. sagt að frestað verði framkvæmdum við Vesturlandsveg á Kjalarnesi. Vesturlandsvegur á Kjalarnesi er mjög brýnt verkefni frá umferðaröryggislegu sjónarmiði, ekkert síður en aðrar meginleiðir út frá höfuðborginni og mér finnst miður að hann skuli líða fyrir þetta. Ég hefði viljað sjá heildstæða stefnumótun um það hvernig menn taka á meginumferðaræðum út úr höfuðborginni, að Vesturlandsvegurinn væri ekki látinn bíða eins og ákveðið hefur verið til þess að geta búið til fullkomnar lausnir annars staðar. Ég hefði viljað sjá stefnumótun um að fara í 2+1-veg alls staðar út úr höfuðborginni með þeim möguleika að fara síðan í tvöföldun á þeim í síðari skrefum. Þá væri hægt að fara jafnvel alla leið austur á Selfoss og upp í Borgarnes eftir góðum 2+1-vegum í fyrsta áfanga og eiga síðan möguleikann á að breikka þá á síðari stigum.

Ég er sem sagt gagnrýninn á þessa forgangsröðun. Ég veit að ég á ekki mjög marga aðdáendur hvað þetta sjónarmið snertir hér á þingi (Gripið fram í.) en ég verð bara að fá að segja þetta. Ég tel að það sé verið að nota atburði sem eiga sér stað til þess að knýja fram framkvæmdir sem ekki er endilega skynsamlegt eða faglegt að fara í núna. Það kann vel að vera að ég verði gagnrýndur mjög fyrir þessi viðhorf en ég spyr: Ef það verður t.d. slys á Vesturlandsvegi á morgun eða hinn, á þá að mynda þrýstihóp til þess að fá tvöföldun á honum strax og mundi samgönguráðherra láta undan því? Ég segi bara eins og er, mér finnst heiðarlegt að það sjónarmið komi fram. (Forseti hringir.) Ég er ekki á móti því að menn fari í umferðaröryggisframkvæmdir á Suðurlandsvegi nema síður sé en ég tel að það sé dálítið tilviljanakennt (Forseti hringir.) hvernig þessar ákvarðanir eru teknar og að þær byggi ekki á langtímastefnumótun.