Viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 15:32:32 (6606)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[15:32]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður má ekki misskilja mig á þann veg að ég sé andvígur því að farið sé í endurbætur á Suðurlandsvegi. Ég tel að slíkar endurbætur séu brýnar, ég tek alveg undir það, og það þarf að gera það alla leið austur á Selfoss. Ég er alveg sammála þeirri skoðun.

Mér finnst hins vegar vanta heildarstefnumörkun um hvernig farið er í þessar framkvæmdir. Meðan menn fara í fullkomna lausn á þessum leiðum, eins og gjarnan er sagt, þá líður hin mikilvæga leið vestur á land og upp í Borgarnes. Ég hefði talið það skynsamlegri forgangsröðun að byrja á því að taka allar þessar leiðir, með þeirri leið sem ég nefndi hér — sem er 2+1, sem hefur gefist mjög vel annars staðar og gefst enn vel annars staðar í kringum okkur, mjög gott umferðaröryggi. Sérfræðingar hafa bent á það og þingmenn hafa væntanlega fengið upplýsingar um það á ráðstefnu þar sem um þetta hefur verið fjallað.

Þar með er ekki sagt að 2+2 vegur sé ekki góð lausn líka og eigi ekki að verða hin endanlega lausn á þessum leiðum. Ég er ekki að segja það. Ég er bara að segja að ákveðin leið — mikil og þung umferðarflutningsleið út úr höfuðborginni, vestur á land upp í Borgarnes, þar sem mikil umferð bæði fólksbíla og flutningabíla — líður fyrir það. Hér er m.a. gert ráð fyrir því að fresta framkvæmdum við tvöföldun á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi sem er mikil slysagildra, þar sem er mikil umferð, þar sem er íbúðabyggð — þetta er ég að benda á en ekki segja að ekki mega gera einhverja hluti annars staðar. Það á ekki misskilja eða túlka orð mín með þeim hætti.

Ég leyfi mér að láta þetta viðhorf mitt koma fram í þessari umræðu af því mér finnst mikilvægt að það heyrist. En ég geri mér grein fyrir því að margir eru ósammála mér um þetta og ekki síst þingmenn Suðurkjördæmis, m.a. væntanlega úr mínum eigin flokki. En það verður þá bara svo að vera og ég leyfi mér að halda þessu viðhorfi á lofti. Ég hef verið talsmaður þess að um leið og við horfum á Reykjanesbrautina og Suðurlandsveginn á Selfoss ættum við líka að horfa á Vesturlandsveginn alla leið upp í Borgarnes og (Forseti hringir.) Hvalfjarðargöngin. Mér finnst það skorta í þessa mynd.