Viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 15:59:45 (6617)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[15:59]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram hjá tveimur hv. þingmönnum, Álfheiði Ingadóttur og Jóni Magnússyni, sem hafa fjallað um fundarstjórn forseta. Það er alveg með ólíkindum hvernig fundarstörfin ganga fyrir sig í dag. Í morgun var dreift dagskrá þar sem voru fjölmörg mál frá a.m.k. þremur ráðherrum, mörg stór mál. Byrjað var á því að breyta röðinni á málum hæstv. menntamálaráðherra þannig að hún byrjaði á að ræða um háskólamálið og fór svo í miðjum klíðum, lét ekki einu sinni vita að hún væri að fara sem er náttúrlega þvílíkur dónaskapur að maður þekkir ekki annað eins. Síðan er farið í mál samgönguráðherra og hann var með ein sex mál á dagskrá ofan í samgönguþingið sem er í dag. Nú er hann farinn og þá á að stoppa umræður um hans mál. Í morgun voru greidd atkvæði um að halda fundi fram á kvöld og 26 hv. þingmenn studdu það. Mér sýnist að meira en 20 þeirra séu flognir úr húsi. Ætla þeir ekki að vera viðstaddir umræðuna fram á kvöld? (Forseti hringir.) Þeir sem báðu um það og greiddu atkvæði með því að hér yrði fundur fram á kvöld? Mér finnst, virðulegi forseti, að nú (Forseti hringir.) eigi forseti að gera hlé á þingstörfum og ræða við þingflokksformenn um það hvernig halda eigi störfum áfram fram á kvöldið.