Aðild starfsmanna við samruna félaga yfir landamæri

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 16:17:47 (6622)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

aðild starfsmanna við samruna félaga yfir landamæri.

533. mál
[16:17]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra hefur svarað þeim spurningum sem ég bar fram áðan og það er gott að fá það staðfest að við erum náttúrlega mjög langt á eftir nágrannalöndum okkar í þessum efnum og við erum líka mjög langt á eftir því sem ég held að margir haldi að við séum.

Á árum áður var hér töluverð umræða um atvinnulýðræði og nauðsyn þess að starfsmenn fengju aðild og upplýsingar um þau mál sem snerta starfsmenn auðvitað mjög mikið vegna þess að það er þeirra lifibrauð og atvinna. En síðan varð ekkert úr þessu hjá okkur. Þetta gufaði einhvern veginn upp. Ég mun taka áskorun ráðherrans og reyna að koma máli þessa efnis hér inn í þingið, vonandi nú á vordögum.

Ég vil þakka þau svör sem ég fékk og mér þykir gott til þess að vita að það er stuðningur við frekara atvinnulýðræði í ríkisstjórninni og við skulum vona að það sé hjá fleirum en bara hæstv. félagsmálaráðherra.