Framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 17:16:32 (6635)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[17:16]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég óska auðvitað hæstv. félagsmálaráðherra gæfu og gengis í þessu máli og efast reyndar ekki um heilindi hennar til að fylgja því eftir. En til að opna augu hugsanlega fleiri í þeirri baráttu er hér örlítið viðbótarnesti:

Einkenni barna með geðraskanir eru greinanleg oft og tíðum í frumbernsku þeirra eða fyrir fimm ára aldur. Ef ekkert er síðan að gert þegar barnið verður kynþroska, 12, 13, 14, 15 ára, er hver dagur í lífi foreldrisins skelfilegur. Það er dagur sem er upp á líf og dauða. Skyldi barnið mitt lenda í fíkniefnum á morgun? Gerist það? Það veldur andvökunóttum og þungum áhyggjum.

Það er dapurlegt til þess að vita og ég þekki dæmi þess að foreldrar slíkra barna sem hafa lent í þessum afbrotum og í fíkniefnum verða óánægðir með að börnin fái skilorðsdóm. Þeir telja þau betur komin í fangelsi en úti á götu. Það er ákaflega dapurlegt til þess að vita.

Þessi börn geta eyðilagt sig á sál og líkama á þeim árum sem fara í hönd, frá 13, 14 ára aldri til tvítugs. Barn sem þannig hefur eyðilagt sig með fíkniefnum og öðru getur kostað þjóðfélagið — og þessar tölur eru ekki út í hött — allt upp undir 300 milljónir á æviskeiði þess. Þá er ég að tala um lífeyri sem getur farið yfir 100 milljónir, um fangelsiskostnað sem er 9 eða 10 þús. kr. á dag, um eignatjón sem þessi börn kunna að valda og þar fram eftir götunum. Með því að bjarga einu barni úr klóm þessara erfiðleika sparar þjóðfélagið um 300 millj. kr. Með því að bjarga tíu börnum sparast e.t.v. 3 milljarðar. Það er til ótrúlega mikils að vinna. Þess vegna má ekki til neins spara.

Ég þykist vita að ef gerð yrði greining á föngum á Litla-Hrauni kæmi í ljós að ótrúlega stór hluti vistmanna á sögu slíkra erfiðleika að baki. Ég uppgötvaði reyndar í heimsókn á Litla-Hrauni í vetur að slíkar sjúkrasögur eða ferlar fylgja ekki föngunum. Mér þótti það nú miður. (Gripið fram í.) Þess vegna veldur það mér vonbrigðum að heyra aðeins töluna 35 millj. kr. eða hugsanlega meira vegna þess að hér þarf hundruð milljóna kr. til að gera vel.

Unnið er að tilraunaverkefni í skóla í Grafarvogi, ef ég man rétt. Þar er verið að búa til öryggisnet: Foreldri, barn, skólayfirvöld, heimilislæknir, sálfræðingur, iðjuþjálfi eða aðrir. Ef svona verkefni á að takast þá kostar það fjármuni. Það þýðir ekki að greina og greina ef viðbrögð fylgja ekki.

Ég verð að ítreka að úrræðin eru þekkt. Þau hafa verið reynd í Noregi, að ég hygg með góðum árangri. Það er til fjöldinn allur af skýrslum sem sýna fram á ýmis úrræði. Það sem á vantar nú eru peningar og það verulegir fjármunir. Ég skora á þingmenn Sjálfstæðisflokksins — ég ætla nú ekki að fara að skammast í þeim hér — að beita sér fyrir því að leggja verulegt fjármagn í þennan málaflokk á fjárlögum fyrir næsta ár. Þá er ég að tala um milljarða fremur en milljónir, hundruð milljóna.

Það er annað sem veldur vandræðum. Hér er ekki bara um að ræða kröfur á hendur ríkinu, að ríkið þurfi að leggja til fjármagn, heldur er þetta kostnaður við sveitarfélögin. Sveitarfélög á landsbyggðinni standa mörg hver mjög illa vegna þess að tekjustofnar þeirra eru ekki nægir og þau geta ekki sinnt þessum málaflokki eins og þeim ber líka skylda til og foreldrar eiga rétt til. Við það bætist að skortur er á læknum á landsbyggðinni auk þess að þúsundir einstaklinga í Reykjavík eru án heimilislæknis þannig að það kerfi er líka illa haldið hér í Reykjavík. Ég ítreka að ég óska hæstv. félagsmálaráðherra góðs gengis í þessum málaflokki.