Framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 17:22:13 (6636)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[17:22]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Herra forseti. Hér er rædd þessi ágæta tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum fram til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2010.

Þingmenn, ráðherra og formaður félagsmálanefndar, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, sem hér hafa tekið til máls hafa reifað þetta mál mjög vel. Ég verð nú að segja alveg eins og er að eftir að við höfum farið yfir plaggið í félagsmálaráði þá finnst mér það vera mjög ítarlegt og gott.

Það er í rauninni alveg ótrúlega tæmandi á sumum sviðum og mér finnst sumpart að farið sé helst til nákvæmlega ofan í hlutina. En það er hins vegar rétt sem fram hefur komið hjá þingmönnum og síðasta ræðumanni sem hér talaði, hv. þm. Atla Gíslasyni, að það er ýmislegt í svona nákvæmri og viðamikilli áætlun sem kallar á meiri fjármuni.

Í þeim efnum er ég viss um að það kallar á hundruð milljóna ef farið er í þessa áætlun lið fyrir lið eins og hér er gert ráð fyrir og þeir fjármunir hafa ekki enn þá verið merktir nema að einhverju marki. Hins vegar er örugglega margt hér sem betur má gera með breyttum og bættum vinnubrögðum fyrir það fjármagn sem þegar hefur verið lagt í málaflokkinn.

Í ljósi þess að í dag stóð á forsíðu Fréttablaðsins að ríkissjóður mundi verða af 150 milljörðum á árunum 2008–2010 þá hefur maður pínulitlar áhyggjur af þessum hluta. Þetta er ekki endilega bara spurning um að skora á okkur stjórnarþingmenn að útvega fjármagn eða tryggja fjármagn í þetta. Við hljótum líka að spyrja okkur að því hvað höfum við af peningum fyrir framtíðina.

Hér var talað um að mikið fjármagn þyrfti til þessa og er þá fleira nefnt eins og t.d. þörfin á fleiri heimilislæknum hér á höfuðborgarsvæðinu. Þótt einhvern ákveðinn fjölda fólks vanti heimilislækna þýðir það ekki endilega að fólk sé í einhverjum vandræðum þess vegna. Það er mjög misjafnt hvernig það kemur til að fólk sækir í slíka þjónustu. Maður hafði engar áhyggjur af því að vera ekki með heimilislækni þegar maður þurfti aldrei á honum að halda, spurði ekki einu sinni um það og fór ekki fram á að fá einn slíkan.

Ég held að þetta verði kannski vandamál, alla vega til einhvers tíma litið. Við þurfum að herða sultarólina þegar kemur að fjármögnun ríkissjóðs og það er ekki aðeins bundið við okkur hér á Íslandi. Það klárlega eitthvað sem margar þjóðir standa frammi fyrir í ljósi þess að mjög svo hefur hægt á í efnahagslífinu víða, bæði austan við okkur og vestan við okkur. T.d. eru Bretar farnir að kalla saman neyðarfundi vegna þess.

Mér finnst þetta mjög metnaðarfull áætlun og mjög ítarlega unnin. Ég geri ekki lítið úr því sem bent hefur verið á að það vanti fjármagn í einstaka liði og finnst svo sem líka ástæða til að koma inn á það. Þetta er áætlun til ársins 2010. Þetta þarf náttúrlega ekki allt að gerast strax en þarna eru mjög mörg brýn málefni og alveg klárt að sum þeirra verða ekki unnin nema til komi auknar fjárheimildir. Ég vil þó undirstrika að það gæti orðið talsvert tekjufall í ríkissjóði á næstu þremur árum.