Framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 17:29:44 (6638)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[17:29]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Til þess að róa Grétar Mar get ég upplýst hann um að við vorum hérna þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins að funda niðri í þingflokksherbergi. Við hlustuðum á umræðuna þar í gegnum sjónvarpið og tókum eftir því af mikilli athygli sem hv. þingmaður var að segja.

Hins vegar vísa ég því algjörlega á bug að það sé aumkunarverð staða að standa hér og tala um peningaleysi. Hitt er annað mál að það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, það þarf að forgangsraða. Ég tek heils hugar undir það. Ef ég var ekki nógu skýrmæltur hér áðan þá sagði ég að hérna væru mjög brýn verkefni á ferðinni. Það er alveg á hreinu, það má gera betur í forgangsröðun á vegum ríkisins. Ég tek undir að bruðlið er víða í þjóðfélaginu. Það hefur verið algjörlega út í bláinn, ég er sammála því.

Þess vegna er það alltaf spurning um hvernig við eigum að eyða peningum úr þessum blessaða ríkissjóði. Ég útiloka ekki að taka þátt í einhverri uppstokkun á því hvernig þessum peningum er eytt. Ég held að ýmislegt sem kemur fram í þessari áætlun sé algjörlega bráðnauðsynlegt og að margt annað mætti víkja.