Framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 17:31:09 (6639)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[17:31]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson viðurkenni að það megi forgangsraða með öðrum hætti en gert er. Það er fyrsta skrefið. En hann nefndi ekki hvar er hægt að skera niður en það gerði ég. Við höfum tekist á um það frá síðustu kosningum hvernig standa eigi að því, hvernig eigi að forgangsraða.

Þegar fjárlögin voru samþykkt sem við erum að vinna eftir núna voru settir smáaurar í þetta, í það sem hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefur úr að moða í þessa málaflokka. Það er auðvitað sorglegt að á sama tíma ... (ÁKÓ: Smáaurar?) Smáaurar, segi ég. Þetta eru allt of litlir peningar í þetta málefni og til málefna barna fara of litlir peningar. Það er öllum ljóst. En sömu aðilar sóttust eftir að komast í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Þeir ákváðu að það væri í lagi að setja pening í það. Þeir ákváðu líka að skipa fleiri sendiherra og búa til ný sendiráð um allan heim, sem kosta stórfé og skila engum árangri fyrir íslenska þjóð. Við höfum á launum sendiherra án sendiráða sem vinna einhver gæluverkefni eða tilgangslaus verkefni í utanríkisráðuneytinu.

Á þetta höfum við bent. Það er mikið bruðl í þjóðfélagi okkar og sorglegt að vita til þess að menn skuli ekki sjá sóma sinn í að breyta því og setja peningana fremur í málaflokk eins og hér er um að ræða, málefni barna.