Framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 17:35:13 (6641)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[17:35]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég stend upp til andsvara við hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson. Hann kvartaði yfir því að ríkissjóður mundi standa illa og að samdráttartími væri fram undan. Ég verð að taka fram að ríkissjóður stendur mjög vel, eins og ítrekaðar yfirlýsingar hæstv. fjármálaráðherra benda til. Þar er borð fyrir báru. En það er ekki efnilegt að heyra þessi orð hv. þingmanns þegar þarf svo sárlega milljarðatugi eða hundruð milljóna í þetta verkefni.

Hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson talar líka um forgangsröð. Þá spyr ég: Vill hv. þingmaður frekar ráðstafa eins og hann hefur gert, 2,3 milljörðum kr. í fjárlögum og fjáraukalögum til hernaðar og hernaðartengdra framkvæmda, til heræfinga á Íslandi á friðartímum, til herafla sem á að flýja ef stríð brýst út og Bandaríkin að taka við? Vill hv. þingmaður jafnframt eyða 1,5 milljörðum í varnarmálaskrifstofu, eins og hv. þingmaður samþykkti á þingi í gær, fremur en að verja börn og ráðstafa fé í þágu þeirra?

Það liggur fyrir áhættumat fyrir börnin. Það liggur fyrir greining en það liggur ekki fyrir nokkur þarfagreining á því að eyða þessum 3,8 milljörðum kr. í hernað og hernaðartengd atriði. Það svíður undan því að vita af þessum vanda þegar bruðlað er með peninga í þennan málaflokk með þeim hætti sem raun ber vitni. Það er ótrúleg forgangsröðun á algerlega óskilgreindri hættu.