Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 18:06:57 (6655)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[18:06]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kann vel að vera að það sé eins og hæstv. ráðherra segir. Það mun þá væntanlega koma fram þegar þetta mál kemur inn til meðhöndlunar nefndar og umsagnir koma frá þeim sem eðlilegt er að leita umsagna hjá.

Ég hjó bara eftir þessu orðalagi hér í greinargerðinni vegna þess að það gefur tilefni til þess að draga þá ályktun að þessir aðilar hafi ekki beinlínis verið þátttakendur í samningu þessara tillagna.

Hins vegar er mér alveg ljóst, og það kemur líka fram í greinargerðinni með þessari tillögu, að þetta þing var haldið í janúar og fjölmargar komu ábendingar þar, m.a. frá frjálsum félagasamtökum. En ég vildi bara hnykkja á þessu að spyrja hver formleg aðkoma frjálsra félagasamtaka ásamt Alþjóðahúsi og Rauða krossi, hafi verið að gerð tillögunnar sjálfrar.