Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 18:07:52 (6656)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[18:07]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þótt ég sé ánægð með þessa áætlun og telji að aðkoma margra að henni hafi tryggt að hún sé vel úr garði gerð þá kemur það auðvitað ekki í veg fyrir að ýmsir aðilar geti haft margvíslegar skoðanir á henni. Þeir geta kannski komið með góðar ábendingar í nefndarstarfinu í félags- og tryggingamálanefnd þegar tillagan fer þangað. Ég fagna öllu sem bætir tillöguna og vona bara að við getum þá náð breiðri samstöðu um það.

Við erum að stíga fyrstu skrefin hér til þess að móta áætlun og í framhaldi af því löggjöf í þessum málaflokki. Það er því mjög mikilvægt, bæði fyrir innflytjendur og samfélagið allt, að vel takist til í þeim efnum.