Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 18:08:42 (6657)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[18:08]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna framkomu þessarar þingsályktunartillögu. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs hér er sú að ég á sæti á Norðurlandaráðsþingi í meðborgaranefnd sem fjallar einmitt um málefni innflytjenda. Þau hafa verið nokkuð til umræðu núna undangengin ár og unnar hafa verið margar góðar skýrslur varðandi mál innflytjenda.

Þess vegna fagna ég sérstaklega því að við skulum taka þennan málaflokk með þeim hætti sem hér hefur verið kynnt, með þingsályktunartillögunni annars vegar og svo lagasetningu í kjölfarið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í kjölfar þeirrar umræðu sem hér hefur verið um sérþekkingu. Hún er gríðarlega mikil á Norðurlöndunum í dag. Munum við þá annaðhvort í undirbúningi þessa verkefnis eða í nefndarstarfinu leita í smiðju þeirra aðila sem tekið hafa hvað mestan þátt í þessu starfi á norrænum vettvangi? (Forseti hringir.)