Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 18:32:58 (6663)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[18:32]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Hér er á ferðinni merkilegt mál frá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sem er tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Mér finnst góður bragur á því að hæstv. ráðherra skuli leggja þetta mál fyrir þingið vegna þess að það er ýmislegt í því sem er fróðlegt fyrir þingið að fjalla um og átta sig á hvað hæstv. félagsmálaráðherra hyggst fyrir í þessum málaflokki.

Það er auðvitað þekkt að innflytjendum hefur fjölgað gríðarlega á Íslandi á mjög skömmum tíma og við höfum rætt það áður á Alþingi hversu vel við höfum verið undirbúin á sumum sviðum og illa á öðrum til að taka á móti fólki svona skyndilega. Mér finnst rétt að taka fram strax í upphafi að það er mjög mikilvægt að gera greinarmun annars vegar á því fólki sem kemur hingað tímabundið til vinnu og fer væntanlega aftur til baka — og við erum þegar farin að sjá það núna að þeir starfsmenn sem komu hingað vegna ákveðinna verkefna eru að hverfa á braut og eins virðast gengismálin að einhverju leyti hafa áhrif á starfsmenn alla vega frá sumum löndum — og hins vegar því fólki sem kemur hingað til langs tíma.

Það sem mig langaði til að ræða hér er einkum tvennt. Í fyrsta lagi að íslensk tunga er rauður þráður í gegnum þessa framkvæmdaáætlun og meðferð íslenskunnar hjá þeim erlendu borgurum sem hér eru. Ég hef oft rætt stöðu íslenskunnar áður og ekki síst þegar kemur að innflytjendum sem hér búa. Ég er á þeirri skoðun að það sé algert grundvallaratriði að mikið sé lagt í íslenskukennsluna, það hefur verið gert að undanförnu og þess er skemmst að minnast að hæstv. menntamálaráðherra gaf verulega í hvað varðar fjármuni til íslenskukennslu.

Það er samt sem áður þannig að núna þegar slaknar svolítið á spennunni á vinnumarkaði kemur betur og betur í ljós að þeir sem ætla að búa hér þurfa helst að kunna íslensku. Ég gat ekki betur heyrt í fréttum í gær en að fjallað væri um það að útlendingar sem búa hér vilji í auknum mæli læra íslensku vegna þess að það er einn af samkeppnisþáttunum á íslenskum vinnumarkaði. Þegar meiri barátta verður hjá fólki á atvinnumarkaðnum kemur býsna vel í ljós að það að hafa lært íslensku skiptir verulegu máli fyrir þetta fólk og að það einangrist ekki í sínu lífi og við náum að aðlaga þessa nýju Íslendinga að okkar samfélagi og menningu. Ég held að við verðum alltaf að hafa það efst á blaði. Þess vegna finnst mér jákvætt að það er töluvert fjallað um þetta í framkvæmdaáætluninni. Ég get nefnt atriði er varða túlkaþjónustuna og eins auðvitað hið gríðarlega mikilvæga mál sem er íslenskunám fyrir fullorðna.

Ég tel líka gott að samráð sé mikið bæði við aðila vinnumarkaðarins og hagsmunaaðila, félagasamtök og slíka aðila sem hafa með þessi mál að gera. Ég trúi því að á vettvangi atvinnurekenda sé einnig mikill vilji og skilningur á því mikilvæga máli sem er að starfsmenn kunni íslensku því að við þurfum ekkert að ræða það hvers konar kostnaður það er að vera jafnvel með annað tungumál í fyrirtækjunum. Vegna þessa langar mig aðeins að nefna eitt atriði sem kemur fram í framkvæmdaáætluninni og það varðar það markmið að innflytjendur hafi aðgang að nauðsynlegum upplýsingum um íslenskt stjórnkerfi og samfélag. Það kemur reyndar fram annars staðar líka að í þessu skyni er verið að leggja til að vefir og útgáfa verði á ensku og jafnvel móðurmáli viðkomandi sé um stóra hópa að ræða fyrir utan náttúrlega íslensku. Því vildi ég varpa því fram til umræðu, og líka fyrir hæstv. félagsmálaráðherra þegar hún heldur áfram að þróa þetta mál, að jafnvel þótt maður geri sér fulla grein fyrir því að menn verði að hafa aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum og það sé kannski grundvallaratriði fyrir þá sem hingað koma að geta áttað sig á hvert eigi að leita með hin ýmsu mál, þá sé þetta samt einhvern veginn þannig að við séum fara út úr því aftur að vilja að íslenskan sé alltaf í fyrsta sæti og þetta sé frekar til að leysa úr einhverjum vanda en ekki að menn venjist á það að við séum alltaf með erlent tungumál og mikil áhersla sé lögð á það. Við vitum að stór hópur Pólverja býr á Íslandi og auðvitað sér þess merki að pólskan er farin að sjást víða og það er ekkert um það að segja í sjálfu sér. Þetta fólk talar ekkert endilega ensku, enda er ekki augljóst að enskan þurfi alltaf að vera annað tungumálið, ég er ekki að segja það heldur að í þessu vandasama verki gefi menn ekkert eftir varðandi tungumálið vegna þess að þegar menn búa á svona óskaplega litlu málsvæði þá er það svo mikilvægt og það verður aldrei of oft sagt hversu miklu máli það skiptir.

Einnig langar mig að fjalla um það sem reyndar hefur aðeins komið fram áður og það er samvinna við aðra aðila. Í því frumvarpi sem hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra er með í undirbúningi eru gríðarlega mörg atriði á ferðinni, þetta verður umfangsmikil löggjöf og það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig því máli vindur fram hjá hæstv. ráðherra. Ég skil þetta svo að þarna sé verið að tvinna saman hluti frá ýmsum öðrum stöðum, stoppa í göt o.s.frv. En ég hef dálítinn áhuga á og kannski örlitlar áhyggjur af því hvernig við ætlum að huga að hinum svokallaða þriðja geira eða þeim sem hafa sinnt þessum málum úti í þjóðfélaginu. Ég vil endilega að það sé tryggt að aðkoma þeirra að málinu sé skýr og góð og við þurfum ekki að orðlengja það hversu merkilegt starf hefur verið unnið hjá Alþjóðahúsi svo dæmi sé tekið. Við getum nefnt fleiri aðila, við getum nefnt Rauða krossinn og fleiri. Ég vil gjarnan að menn horfi til þess þegar þetta frumvarp er í vinnslu í ráðuneytinu og eins vona ég að hv. félagsmálanefnd Alþingis horfi sérstaklega til þess, þegar hún fjallar um þessa þingsályktunartillögu, hvernig hnykkja megi á því að sem flestir geti komið að því að vinna þetta verk. Vegna þess að það hlýtur alltaf að vera best að sem flestir sem hlut eiga að máli taki þátt í verkefni eins og því að hjálpa innflytjendum að bæta stöðu sína. Að því hljótum við að stefna og ég hvet hæstv. ráðherra alveg sérstaklega í því efni.

Vegna þess hversu margþætt þessi starfsemi er og á vegum margra ráðuneyta, þetta eru ýmis verkefni, þá átta ég mig ekki alveg á forgangsröðuninni, hvort það er ákveðin forgangsröðun í einstökum málum. Maður sér að það eru einhver ártöl nefnd en það er dálítið vont að átta sig alveg á því, en væri fróðlegt að heyra hvaða mál umfram önnur ráðherra leggur mesta áherslu á og svo væri auðvitað fróðlegt að vita hver hæstv. ráðherra telur að kostnaðurinn af þessu verði. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að vita hver hann er og jafnvel hvernig hann skiptist en ég veit að gert er ráð fyrir þessum kostnaði á næstunni. Það er alveg skýr stefna hjá ríkisstjórninni að vinna þessi mál vel en engu að síður væri dálítið fróðlegt að heyra þetta, sérstaklega með tilliti til forgangsröðunarinnar sem ég nefndi hér. Og ég vil þá aftur nefna að í mínum huga hlýtur íslensk tunga að vera gríðarlega mikið forgangsatriði og að fólk sem hingað kemur falli inn í samfélagið þannig að það geti notið þess að búa hérna og við getum talað við það og það geti verið hluti af okkar samfélagi.