Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 19:11:15 (6668)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[19:11]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að það skuli vera komin fram sú tillaga sem hér ræðir um til þingsályktunar og tel að hér sé mun betur að verki staðið hjá hæstv. félagsmálaráðherra en gert var í tíð fyrri ríkisstjórnar. Þar voru menn að pukrast með þetta og málið var ekki lagt fyrir þingið. Ég tel þetta vera miklu betra verklag eins og hér er staðið að málum.

Ég get tekið undir með hv. þm. Paul Nikolov að það er gott að þessi þingsályktunartillaga skuli vera komin fram. Það er þó þannig að hér eru beinin sett fram en kjötið vantar. Það er það sem væntanlega á eftir að sjá dagsins ljós.

Ég tek undir varnaðarorð hv. þm. Erlu Óskar Ásgeirsdóttur varðandi efasemdir hennar um ríkisvæðinguna. Ég vil ræða það sem sett er fram í þingsályktunartillögunni, þ.e. í 1. lið um verkefni stjórnvalda. Þar segir að betur verði tekið á móti erlendu fólki sem flyst til landsins og því auðveldað að vera virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Síðan kemur að því að rækta menningu síns hóps. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að við aðstoðum þá sem hingað flytja við að aðlagast því samfélagi sem það er flutt til, að fólk fái virkan stuðning við að læra tungumálið, fái virkan stuðning og möguleika á því að afla sér þekkingar á samfélagi, lögum, sögu og menningu þjóðarinnar. Það er grundvallaratriði að við höfum þá möguleika að takmarka aðkomu útlendinga við það sem þjóðfélagið og velferðarkerfið geta ráðið við. Í samningi um Evrópska efnahagssvæðið eru ákvæði um slíka takmörkun.

Skylda ríkisstjórnar er við þá sem í landinu búa og það er skylda ríkisstjórnarinnar að gæta þess að allir búi við sömu kjör, sömu lög, sama rétt og njóti þeirrar velferðar sem við teljum og viljum skapa fólkinu í landinu. Við frjálslynd höfum haft uppi ýmis varnaðarorð. Við höfum bent á vandamál vegna félagslegra undirboða. Við höfum bent á vandamál sem hafa komið til vegna þess að það hefur verið svo stríður fólksstraumur að velferðarkerfið hefur hreint og satt ekki staðið undir því sem þurfti að gera. Út úr þessu hefur verið snúið og stundum er heppilegra að vísa til annarra tíma þegar verið er að fjalla um mál sem mörgum er lagið að snúa út úr.

Mikill fólksstraumur úr einum stað til annars skapar ákveðin vandamál. Þess vegna vil ég, með leyfi virðulegs forseta, vísa í ræðu sem haldin var af þáverandi borgarstjóra í Reykjavík, dr. Gunnari Thoroddsen, þann 18. ágúst árið 1949, en hann var einn merkasti stjórnmálamaður síðustu aldar. Þar var að ræða mikinn fólksstraum af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Í ræðunni segir dr. Gunnar m.a., með leyfi forseta:

„Hinn mikli vöxtur Reykjavíkur að íbúatölu er ekki að óskum okkar Reykvíkinga. Við finnum glöggt þá örðugleika sem hið óeðlilega aðstreymi leggur okkur á herðar. Það skapar okkur gríðarlegan kostnað. Við þurfum þess vegna að leggja fleiri götur, byggja fleiri skóla og fleiri íbúðir. Mannvirki okkar, vatnsveita, raforkuver, hitaveita, höfn verða of lítil fyrr en varða mundi ef fjölgunin væri róleg og eðlileg. Þjóðhagslega er þessi þróun ekki æskileg.“

Dr. Gunnar Thoroddsen var einn gleggsti stjórnmálamaður síns tíma og hann greindi í þeirri ræðu sem ég hér vísa til þau fjölmörgu vandamál sem skapast vegna þess að fólksstraumur verður örari en auðvelt er að ráða við. Á þeim tíma, eins og kemur fram í tilvitnaðri ræðu dr. Gunnars Thoroddsens, gerðu menn sér grein fyrir og töluðu um þann vanda sem mikill fólksstraumur veldur. Hins vegar hefur borið á að talsmenn fjölmenningarinnar hafi viljað viðurkenna þau vandamál sem hljóta alltaf að koma upp þegar mikill fjöldi fólks flyst af einum stað á annan til lengri dvalar. Að sjálfsögðu eru það sambærileg vandamál og dr. Gunnar benti á í ræðu sinni. Það er við þeim vandamálum sem við þurfum að bregðast og stjórnendur þjóðfélags bera ábyrgð gagnvart þeim sem undir þá heyra. Þeir bera ábyrgð á því að allir sem hér dvelja njóti mannréttinda og félagslegs atlætis. Þess vegna taldi ég og tel að íslensk stjórnvöld hefðu átt að grípa til ráðstafana á sínum tíma til að takmarka aðstreymi og gæta þess íslenska velferðarkerfið gæti ráðið við þann fólksstraum sem um væri að ræða.

Það var vandamál að útvega fólki kennitölur, að börn þeirra innflytjenda sem hingað komu til lengri dvalar gætu fengið skólavist eða eðlilega þjónustu. Við frjálslynd bentum á þau undirboð sem tíðkuðust og við bentum á þær aðstæður sem margir byggju við sem væru hreinlega ekki mannsæmandi. Við héldum því líka fram að það væri spurning um hvort til væri nægjanlega góð skráning á því hve mikill fjöldi væri í landinu.

Nú hefur komið í ljós, og var frétt um það í Fréttablaðinu fyrir nokkrum dögum, að þetta hefur allt reynst rétt. Það liggur fyrir að Vinnumálastofnun skráir nú fólk sem óvíst er hvort er búið að vera hér um lengri eða skemmri tíma en skráningin á sér stað núna. En ég verð að segja það hæstv. félagsmálaráðherra til hróss að ég hygg að það sé m.a. vegna þess að hún hefur beitt sér í þessu máli og viljað taka á málum af röggsemi að það komi ekki til þeirra vandamála sem ég hef rakið og sem vissulega var gagnrýnisvert. Það er ekki ásættanlegt að við búum ekki öllum þeim sem hér eiga rétt til veru mannsæmandi aðstæður í þessu velferðarþjóðfélagi okkar.

Ég tel að það skipti gríðarlega miklu máli að við tökum vel á móti því fólki sem hingað kemur, leitar sér lífshamingju og vill gerast nýtir þjóðfélagsborgarar í okkar samfélagi. Það hefur til þess fullan rétt en við eigum ávallt að fara varlega og gæta þess að það séu þeir sem vilja verða nýtir þjóðfélagsþegnar en ekki fólk sem getur verið ógn við það samfélag sem við búum í. Það verður að bregðast við því og hugsanlega hefur ekki verið gætt nægjanlega að málum þar. Ég vil að höfuðáhersla sé lögð á tungumálakennslu í sambandi við framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Lykillinn að því að þeir sem hingað flytja og dvelja í lengri tíma, geti notið þeirra samfélagslegu möguleika og úrræða sem við viljum að allt fólk hér í landi geti notið, er að þeir hafi góða þekkingu á íslenskri tungu. Það er lykillinn að því að önnur kynslóð og þriðja kynslóð innflytjenda aðlagist með sem bestum hætti. Það er líka lykillinn að því að þeir sem hingað flytjast hingað og ætla sér að búa hér hafi virka og nauðsynlega þekkingu á samfélaginu, á lögum samfélagsins, siðum þess og menningu. Það eru þessi atriði sem eru grundvallaratriði í sambandi við eðlilega og nauðsynlega aðlögun að samfélaginu. Það eru tunga, lög, menning og siðir sem við þurfum að leggja áherslu á. Að sjálfsögðu eigum við ekki að þvinga einn eða neinn en það eru mikilvæg atriði til þess að aðlögun og velmegun þessa hóps sem hingað kemur geti nýst og verið sem best og sem fyrst.