Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 19:23:30 (6670)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[19:23]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er engin góður karlakór þar sem allir syngja í sömu tóntegund. Menn verða bæði að syngja í dúr og moll að sjálfsögðu. Og það er nú einu sinni þannig að — (Gripið fram í.) þeim mun betri, þeim mun betri og þú ert velkominn í karlakórinn, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Varðandi það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson var að vísa til þá get ég ekki greint að það sé meiningarmunur um þau helstu áhersluatriði sem um er að ræða. Við erum sammála um það að við viljum skapa almenna velferð fyrir þá sem hingað koma.

Þegar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson spyr, hvað ef þeir sem hingað koma vilja ekki taka þeirri íslenskukennslu eða kennslu í samfélagsfræðum sem ég var að vísa til, þá vék ég einmitt að því í ræðu minni og ef hv. þingmaður hefði hlustað grannt eftir þá hefði hann heyrt það sem ég sagði, að sjálfsögðu viljum við ekki neyða neinn. Fólk verður að ráða sér sjálft. Við viljum ekki neyða ákveðnum hlutum upp á fólk. Það er nú frekar í anda þeirrar hugmyndafræði sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson aðhyllist en þeirrar sem lýtur að viðhorfum frjálslyndra manna í samfélagi. Að sjálfsögðu neyðum við engan til einhverra slíkra hluta. Fólk verður að ráða sér sjálft. Það verður að taka því hvort það vill nýta sér þá þjónustu sem ég tel að við ættum sem samfélag að bjóða útlendingum upp á.

Varðandi seinna atriðið sem hv. þingmaður vék að, þ.e. hvað stjórnvöld geti gert varðandi komur hópa til landsins sem talið er æskilegt að takmarka. Hvernig brugðust stjórnvöld við hópi vélhjólamanna sem ætlaði að koma til landsins? Þau brugðust einfaldlega þannig við að hópnum var ekki hleypt inn í landið. (Forseti hringir.) Úrræðin eru því fyrir hendi og svo ég vísi aftur í dr. Gunnar Thoroddsen, í lokaorð hans í áramótaávarpi: Vilji er allt sem þarf.