Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 20:16:28 (6676)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[20:16]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þá er um þetta eins og oft er að hér er um misskilning að ræða og við hv. þm. Ögmundur Jónasson erum meira og minna sammála í þessu. Til dæmis elskum við ríkið og erum þeirrar skoðunar í pólitík að ríkið eigi að hafa sitt pláss og það eigi ekki að tala illa um ríkið og ekki um ríkisstarfsmenn. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að einmitt í þessum málaflokki sé hlutverk þriðja geirans, og ég er ekki að tala um einkafyrirtæki eða hagnaðarfyrirtæki heldur um félagasamtök og hálfopinber samtök sem ég tel að Rauði krossinn í raun og veru sé og alþjóðabandalög af hans tagi, sé óvenju mikið í þessum efnum. Mér heyrist að við hv. þm. Ögmundur Jónasson séum bara sammála um það. Og í framhaldinu sé rétt að leita þeirra lausna á ýmsum vanda sem við stöndum frammi fyrir að athuga hvort ekki sé með þjónustusamningum eða að fela þessum samtökum í þriðja geiranum verkefni, hægt að leysa málin betur en að festa þau inni í ríkisstofnunum af ástæðum sem ég tilgreindi hér áður.