Viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 22:11:10 (6711)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[22:11]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það væri sannarlega til þess að bæta fyrir það sem miður hefur farið í dag í stjórn þessa fundar ef hæstv. forseti féllist á að verða við þeim sanngjörnu tilmælum sem hér hafa verið sett fram um að ljúka fundi þegar umræðu um viðauka við samgönguáætlun lýkur. En ég vek athygli á því að enn eru sjö þingmenn á mælendaskrá í því máli að sagt er. Þá er eftir á dagskrá fundarins Landeyjahöfn, stjórnarfrumvarp, 1. umr. Einnig er eftir stjórnarfrumvarp um umferðarlög, breyting á umferðarlögum. Og loks er enn opið á dagskránni þar sem hæstv. menntamálaráðherra hljóp frá í hádeginu, 4. mál á dagskrá um opinbera háskóla. Mér sýnist því, herra forseti, að það sé lítið annað að gera en að fallast á þessi sanngjörnu tilmæli.