Viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 22:50:14 (6722)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

Fviðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[22:50]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði einmitt að koma í minni seinni ræðu að því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði hér að umtalsefni, þ.e. að stjórnsýslulegri eða þinglegri stöðu málsins. Þetta er bara ályktunartillaga sem hefur ekkert lagalegt gildi á nokkurn hátt. Fyrir utan aðferðina sem beitt er með ósýnilegum lántökum — menn vita ekki á hvaða kjörum á að taka féð að láni eða neitt. Það liggur ekkert fyrir með neinum hætti — þá hefur þessi tillaga í sjálfu sér engan bindandi gjörning fyrir Alþingi sem slíkt og alls ekki.

Ég spyr því bara hvort samhliða þessari ályktun verði ekki lagt fram frumvarp til fjáraukalaga þar sem þetta kæmi þá alveg fram og fjárlaganefnd og Alþingi ræddi þetta mál á þeim forsendum sem stjórnarskrá og fjárreiðulög gera ráð fyrir.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort við stöndum ekki saman í því í fyrsta lagi að fara yfir hina löglegu hlið málsins ef þetta á að ganga fram svo vitlaust sem þetta er varðandi fjármögnunina og líka að farið sé mjög ítarlega ofan í það hvaða leið er hagkvæmust í fjármögnun þessara verkefna en ekki bara lögð fram órökstudd — eins og hv. þingmaður gerði rækilega grein fyrir — órökstudd tillaga að skuldbindingum fram í tímann án þess að því fylgi nokkur rökstuðningur að það sé hagkvæm leið að skuldbinda ríkissjóð með þessum hætti.

Ég vildi, herra forseti, taka alveg afdráttarlaust (Forseti hringir.) undir sjónarmið hv. þingmanns um það hvers konar lögleysu menn eru hér að fremja varðandi fjármál ríkisins (Forseti hringir.) nema þá að því fylgi einhver annar lögformlegur gjörningur.