Viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 22:54:04 (6725)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[22:54]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hreyfir hér mjög mikilsverðu máli sem er undarleg framsetning á fjármögnun tveggja verkefna í þessari aukasamgönguáætlun.

Nú er að vísu um tvö mjög óskyld verk að ræða, annars vegar Vaðlaheiðargöng sem er að mínu mati verkefni sem vel getur komið til greina að vinna með sérstökum hætti hvort sem menn kalla það einkaframkvæmd eða eitthvað annað og að þau standi undir sér eftir því sem þau geta með veggjöldum. Þetta er mjög sambærilegt dæmi og Hvalfjarðargöng á sínum tíma, hjáleið sem styttir og er valkostur við það að taka krókinn. Það hefur lengi legið fyrir að þau göng gætu séð um sig svona að hálfu leyti eða svo. Hitt er svo Suðurlandsvegurinn sem er almenn vegaframkvæmd og er náttúrlega alveg út í hött og er rugl að fara með í einkaframkvæmd.

En það er annað og öllu alvarlegra sem ég sé í forsendu þessarar vegáætlunar og það er að ríkið ætlar ekki að leggja sitt framlag með venjulegum hætti í formi fjármögnunar á byggingartíma heldur á að fá það lánað hjá framkvæmdaraðilanum og endurgreiða það með föstum greiðslum í 25 ár sem er alveg borðleggjandi dýrari kostur, alveg örugglega vegna þess að fjármögnun einkaaðilans verður mun dýrari og auðvitað á ríkisframlagið að koma á byggingartíma í tilviki Vaðlaheiðarganga með jöfnum greiðslum. Þá verða þau ódýrari og veggjöldin borga svo lántökuna sem til þarf á móti. En Suðurlandsveg á að sjálfsögðu að leggja eins og venjulegan þjóðveg með opinberum fjárveitingum. Hitt er bara rugl, þ.e. að taka einhverja búta af þjóðvegakerfinu og fara með þá yfir í eitthvað sem menn kalla einkaframkvæmd eða einkafjármögnun og gera það svo svona.

Ég held að hér sé verið að fara út í algjöra ófæru. Það þarf að reyna að koma vitinu fyrir menn í þessum efnum fyrr en seinna. Hér þarf þingið að taka í taumana og setja þessi mál í eðlilegan farveg.