Viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 22:57:38 (6727)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[22:57]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni um þetta vegna þess að einkaaðilinn verður að fjármagna verkið á byggingartíma. Þó hann hafi samning í höndunum þá verður hann að fá fjármagnið einhvers staðar frá á meðan og alla veganna er mjög líklegt að meiri fjármagnskostnaður hlaðist á verkefnið á framkvæmdartíma en ella þyrfti að gera.

Ríkið þarf ekkert að taka lán til þessara framkvæmda. Eða er þá ríkissjóður svona illa staddur eftir allt saman? Ef ríkissjóður þarf að taka lán er þá ekki eðlilegra að gera það bara með skuldabréfaútboði og borga þetta strax og ríkið endurgreiði svo bara skuldabréfin á gjalddögum þeirra? Það er miklu eðlilegri fjármögnunarleið en að fara þessa hjáleið við fjármögnun í gegnum framkvæmdaraðilann. Þetta er mjög óeðlileg uppsetning mála og ég held að menn séu að fara hér út í ófæru. Það vantar auk þess í öðru lagi alla stefnumörkun hvað varðar almennt hvernig menn ætla að standa að málum með umferðaræðarnar hér út frá höfuðborgarsvæðinu. Að taka einn veg svona fyrir og fara með hann yfir í einkaframkvæmd en gera þetta svo með hefðbundnum hætti suður á Suðurnes og upp á Vesturland er auðvitað bara rugl. Auðvitað á að vera (Forseti hringir.) ein samræmd stefna í þessu. Það er ódýrast og eðlilegast að ríkið geri þetta sjálft.