Viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 23:29:57 (6736)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[23:29]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að eitt af því sem menn ættu að hugleiða til að hafa stjórn á þróuninni í miðborg Reykjavíkur sé að takmarka fjölda bílastæða þannig að menn komist einfaldlega ekki til vinnu sinnar hver og einn á sínum einkabíl, það bara séu ekki til nægjanlega mörg bílastæði fyrir alla þá sem hér vinna. Það þýðir einfaldlega að menn verða þá að koma sér í vinnuna eftir öðrum leiðum, almenningssamgöngum eða með öðrum hætti. Mér finnst ekkert að því að það sé hluti af lausninni, alveg eins og það að efla almenningssamgöngur sé líka hluti af lausninni. Mér finnst alveg koma til greina að ríkissjóður standi að einhverju leyti undir rekstri á almenningsvagnakerfi á höfuðborgarsvæðinu.

Varðandi leiðina norður í land er ég á þeirri skoðun, virðulegi forseti, að menn eigi þar eins og annars staðar ekki að leggja út í meiri fjárfestingu en þörf er á. Mér finnst 2+2 vegir sem menn hafa lofað hér frá Reykjavík og austur fyrir fjall vera alveg á mörkum þess að standa undir sér. Ég held reyndar að á Suðurlandi sé það eiginlega of í lagt. Ég held að 2+1 dugi alveg þó að menn séu búnir að binda sig að einhverju leyti. Ég tel að hið sama eigi við um leiðina norður og vestur um nema það mætti hugsanlega segja að um leiðina að Kjalarnesi sé það mikil umferð að ef það er talið forsvaranlegt að hafa 2+2 vegi um Suðurland gildi það líka um leiðina upp á Kjalarnes. Frá Hvalfjarðargöngum og upp í Borgarnes er að mínu viti alveg tómt mál að tala um að þar eigi að vera 2+2 vegir þar sem umferðin er rétt rúmlega 2.000 bílar á sólarhring, a.m.k. innan við 3.000 bílar. Þar er 2+1 alveg yfrið nóg og ég held að menn eigi ekki að vera að kalla á dýrari lausnir en þörf er á.