135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:05]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Akkúrat, ég held að menn eigi ekki alltaf að þurfa að finna upp hjólið. Það er ágætisreynsla af lausnum eins og hringtorgum meðan umferðin er ekki meiri en svo að þau nægja. Það eru auðvitað margfalt ódýrari gatnamót, eins og breytingarnar sem gerðar voru og auðvitað allt of seint á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar en hafa stórlagað ástandið þar með ljósastýringu og beygjuakreinum og öllu sem þar var bætt við og sýnir sig að stundum er fyrir miklu minni peninga en dýrustu og flottustu lausnirnar hægt að ná miklum árangri til að fækka slysum og það er það sem mér finnst menn verða að hafa í huga. Og 2+1 vegir, ef menn ná þrisvar til fjórum sinni lengri köflum fyrir sama fé, auka náttúrlega umferðaröryggi margfalt. Svíar hafa mjög góða reynslu af því að nota slíkar lausnir.

Enn bíð ég eftir svarinu um Vaðlaheiðargöng. Er það ekki algerlega á hreinu, getur ekki hæstv. ráðherra komið með þetta eina já, að það sé þannig að (Forseti hringir.) Vaðlaheiðargöngin verði eign ríkisins að samningstíma loknum og renni saman við vegakerfið?