135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:18]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir heldur leitt að þurfa að leiðrétta hæstv. ráðherra sveitarstjórnamála hér úr pontu hvað varðar almenningssamgöngur, hæstv. ráðherra, þær eru alls ekki lögboðin verkefni sveitarfélaga. Og það er ekkert sem segir til í neinum (Gripið fram í: … lögboðið.) … Nei. En hvað á hæstv. ráðherra þá við þegar hann segir að þetta séu verkefni sveitarfélaga? Þannig sé verkaskiptingin. Það er alveg augljóst hvernig á að skilja það. Það er að þetta sé lögboðið verkefni sveitarfélaganna og ríkið eigi ekki að koma að því.

Þetta er valkvætt verkefni sem sveitarfélögin hafa neyðst til að taka að sér, alein og óstudd gegn mjög íþyngjandi álögum af hendi ríkisins vegna þess að ríkið hefur algjörlega forsómað stefnumörkun og þátttöku í þessum mikilvæga þætti samgangna í landinu.

Aðeins eitt að lokum, hæstv. ráðherra. Það hafa ekki (Forseti hringir.) borist svör ráðherrans við spurningum sem nokkrir þingmenn hafa borið fram um áframhaldandi siglingar flóabátsins Baldurs yfir (Forseti hringir.) Breiðafjörð.