135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:28]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg fullyrt það við hæstv. ráðherra að við Steingrímur J. Sigfússon erum algjörlega sammála í þessu máli. Samningur um Hvalfjarðargöng hefði verið enn betri, enn hagstæðari ef hann hefði verið framkvæmdur alfarið á vegum ríkisins. Það voru hins vegar ekki pólitískar forsendur fyrir því eins og fram kemur í úttekt Ríkisendurskoðunar á þessu máli.

Nú eru að dúkka upp um síðir einhverjar skýrslur frá Noregi sem hæstv. ráðherra segist hafa lesið. Fyrr við umræðuna sagðist hann hins vegar byggja sín sjónarmið fyrst og fremst á Hvalfjarðargöngunum. Þegar hann síðan er rekinn til baka með það þá er farið að reyna að klóra í einhverjar aðrar skýrslur. Halda menn að þingið láti bjóða sér svona málflutning? Ég ætla að vona að svo sé ekki.

Þessi framsetning hæstv. ráðherra og sjálfstæðisflokksmanna upp til hópa og reyndar margra úr stjórnarliðinu, því miður allt of margra hægri krata líka, gengur út á að láta stjórnast af hugmyndafræði. En það er hugmyndafræði fjármagnsins sem gengur erinda þess og staðhæfir algerlega út í loftið að markaðsvæðing, einkaframkvæmd sé betri. Síðan þegar kemur að því að færa málefnaleg rök fyrir máli sínu, sýna okkur dæmin, sýna fram á með málefnalegum rökum að þetta sé betra, að það sé hagkvæmari kostur og ódýrari kostur þá eru engin svör. Að minnsta kosti er mjög fátt um þau og það er óþægilega fátt um svör hjá hæstv. ráðherra, Kristjáni Möller.