135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:30]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sagði að hann og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefðu verið algjörlega sammála um það sem gert var við Hvalfjarðargöng en að hægt hefði verið að gera það enn betur með því að fara í ríkisframkvæmd. Ég er ekki sammála því. Þá hefði verkið tafist um einhver ár, við vitum ekki hve mörg, fáum aldrei svar við því. Jákvæð áhrif á byggðaþróun á Vesturlandi hefðu þá komið miklu seinna. Hvað hefði það kostað á móti vöxtum sem e.t.v. voru hærri vegna þess að tekið var lán fyrir framkvæmdinni en ekki tekið beint úr ríkissjóði? Hv. þingmaður sagði að framkvæmdin hefði verið góð og glæsileg en gera hefði mátt hana enn betri með því að gera þetta. Þá verðum við að svara spurningunni: Ef göngin hefðu komið fimm, tíu eða fimmtán árum seinna, hvað hefði það kostað? Þá hefði það jákvæða sem gerðist með þeim ekki komið strax fram og eitthvað hefði það kostað.

Hér hefur verið rætt um Vaðlaheiðargöng og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rifjaði upp kosningabaráttu okkar. Hann sagði í kosningabaráttunni að hann útilokaði ekki einkaframkvæmd, hann talaði jafnvel fyrir henni hér áðan með Vaðlaheiðargöng. Við áttum hér samræður ekki alls fyrir löngu, ég og einn helsti talsmaður Vinstri grænna í samgöngumálum, Árni Þór Sigurðsson — ég man ekki í hvaða umræðu það var. Þá töluðum við um einkaframkvæmd og veggjöld og hv. þingmaður lokaði ekki á að hann væri hlynntur skoðunum á þessum atriðum. Ég held ég muni þetta nokkurn veginn rétt svona.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson á ekki eintóma skoðanabræður í flokki sínum hvað þetta varðar. Ég hef nefnt hv. þm. Árna Þór Sigurðsson og 4. þm. Norðvest. var líka hlynntur einkaframkvæmd hvað varðar Vaðlaheiðargöng.