135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:42]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aumingja ráðherrann, hæstvirtur, er bara fastur í því hjólfari sínu að reyna að snúa upp á málin með þessum hætti. Ég nenni ekki að eiga orðastað við hann á slíkum forsendum. Ég held að hæstv. ráðherra, Kristján Möller, ætti frekar að fara norður á Akureyri og halda fund og biðjast afsökunar á því að hafa verið með algerlega innstæðulaus loforð um gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax — það átti að byrja á þeim í fyrrahaust ef marka mátti orð ráðherrans fyrir kosningar. Ef borðinn sem Samfylkingin strengdi yfir Ráðhústorgið er enn til, þar sem þetta stóð, væri gaman að bregða honum upp, ég hugsa að Akureyringar yrðu kampakátir ef ráðherrann kæmi og stæði undir borðanum þegar hann bæðist afsökunar á því að hafa verið með svona rugl, vegna þess að þetta var innstæðulaust og hæstv. ráðherra vissi það vel. Vaðlaheiðargöng hafa hvergi verið inni í röð jarðganga og engin pólitísk samstaða um að taka þau fram fyrir önnur. Áhugi heimaaðila í héraði á þessu þarfa verki er hins vegar lofsverður og ég hef að sjálfsögðu alltaf tekið undir það að það sé mjög spennandi kostur í samgöngumálum á þessu svæði að koma þessu verki áfram. En pólitískar forsendur eru þessar, sem raun ber vitni, í málinu og það vitum við vel.

Varðandi Hvalfjarðargöngin — þar voru náttúrlega fleiri hlutir sem voru algerlega sérstakir. Hér var verið að tala um að ráðast í fyrstu neðansjávarjarðgöng á Íslandi, umtalsverð áhætta var talin fólgin í verkefninu sem menn notuðu sem rök gegn því að til greina kæmi að taka það inn á vegáætlun og ýta öðrum verkefnum aftur fyrir það. Hugsunin var sú þegar lögin voru sett og samningurinn gerður. Það er alveg rétt að ég skrifaði undir þann samning, ásamt þeim forseta lýðveldisins sem nú er, uppi á Akranesi á sínum tíma, ég held að það hafi verið í janúarlok 1991. Ekki var haft hátt um það þegar sjálfstæðismenn voru að vígja göngin að einhverjir aðrir hefðu átt frumkvæðið að því að koma þeim af stað.

En þegar þetta var gert var það með fyrirvara um að kannski yrði ekkert af framkvæmdinni. Ef áhættan yrði talin (Forseti hringir.) of mikil og engir fengjust til fjármagna verkið þá sætu menn bara uppi með það. Það er óframbærilegur málflutningur að rugla þessu saman við umræðuna eins og hún er nú sett fram (Forseti hringir.) af hálfu hæstv. ráðherra sem almenna einkavæðingaráráttusýki í vegamálunum, hæstv. ráðherra.