135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:56]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni fyrir það að lesa hér upp úr fyrstu málsgreininni sem var í þessari grein um að Samfylkingin boðaði stórátak í samgöngumálum vegna þess að það er sannarlega rétt. Það var gert. Það var gert af okkar foringja, okkar formanni Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur strax í kringum 10. eða 11. janúar í aðdraganda kosninga þar sem boðuð var ný byggðastefna sem byggðist á stórátaki í samgöngumálum, fjarskiptamálum og menntamálum. Ég er ákaflega stoltur af því sem þar var sett fram og það má sjá í stjórnarsáttmála. Ég skal þó líka segja það alveg hiklaust að allir aðrir flokkar komu þá á eftir með svipaða skoðun. Sem betur fer er það þannig að samhljómur er á Alþingi Íslendinga meðal allra flokka um stórátak í samgöngumálum.

Ég er ákaflega stoltur af því, virðulegi forseti, að hafa á um það bil átta til níu mánuðum komið því til leiðar að hér ræðum við þessa samgönguáætlun með þeim framkvæmdum sem þar eru, flýtiframkvæmdum ýmsum, 750 millj. kr. viðbótarframlagi við tengivegi en meðal annars sagði hv. þm. Vinstri grænna Jón Bjarnason strax í desember það alveg sérstaklega glæsilegan árangur að gera þetta því hann hafi oft talað fyrir viðbótum í því og sagði að þarna væri það að takast.

Ég er líka stoltur af því að hafa getað sett í þessa samgönguáætlun sem ríkisstjórnin stendur að sjálfsögðu öll bak við framkvæmd eins og Vaðlaheiðargöng og gert það á þennan hátt. Allir aðrir en ég sögðu í kosningabaráttunni fyrir norðan að hún ætti að vera í einkaframkvæmd og með veggjöldum og vildu ekki hlusta á hina framkvæmdina. Þess vegna vil ég núna, virðulegi forseti, af því að andsvaratíminn er búinn, spyrja hv. þingmann Björn Val Gíslason hvort hann hafi ekki verið sammála sínum oddvita sem á kosningafundi meðal annars í Sjallanum andmælti því (Forseti hringir.) að þetta ætti að vera ríkisframkvæmd og skammaði mig fyrir að ég héldi að peningar í það mundu falla af himnum ofan (Forseti hringir.) og tók undir að það ætti að vinna Vaðlaheiðargöngin í einkaframkvæmd með þá veggjöldum.