135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

umferðarlög.

579. mál
[01:06]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á 67. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sem miðar að því að sérstakt gjald verði lagt á eigendur eða umráðamenn ökutækja sem vanrækja að færa ökutæki sitt til lögmæltrar skoðunar.

Ítrekað hefur verið bent á nauðsyn þess að ná til ökutækja í umferðinni sem eru óskoðuð og í lélegu ástandi. Af þeim sökum legg ég fram þetta frumvarp í þeirri trú að það muni, verði það að lögum, fækka óskoðuðum ökutækjum í umferð til muna.

Gjald það sem hér um ræðir er hugsað sem eins konar viðurlag vegna vanrækslunnar og þar með hvatning til eigandans að bæta ráð sitt og ber honum að greiða þegar mætt er með ökutækið í skoðun á skoðunarstöð. Til að hvetja eigendur til að draga ekki of lengi að færa ökutæki til skoðunar er gert ráð fyrir að gjaldið lækki um helming, sé það greitt innan ákveðins frests. Sé ökutæki fært til skoðunar en gjaldið ekki greitt er lagt til að það hækki um 100%. Jafnframt yrðu gerðar ráðstafanir til þess að taka skráningarnúmerin af viðkomandi ökutæki.

Gera má ráð fyrir því að eigendur ökutækja muni, ef frumvarpið verður að lögum, fremur kjósa að fara með ökutæki sín til skoðunar og komast þannig hjá því að borga gjaldið.

Virðulegi forseti. Ökutækjaeign landsmanna hefur aukist geysilega á undanförnum árum. Um síðustu áramót voru skráð ökutæki hér á landi 258.009, þar af voru 25.128 þeirra óskoðuð eða tæplega 10% af heildarökutækjafjölda landsmanna. Þetta er með öllu óviðunandi ástand út frá umferðaröryggissjónarmiðum, en skilvirk úrræði hefur til þessa skort eftirfylgni með því að óskoðuð ökutæki séu færð til skoðunar.

Spyrja má hvers vegna verið er að leggja til að gjald verði lagt á eigendur óskoðaðra ökutækja í stað þess að beita sektum. Því er til að svara að þetta refsivörsluúrræði, þ.e. að leggja á gjald í stað sektar, á rót sína að rekja til þess að reynst hefur þungt í vöfum að reka refsimál vegna umræddra brota. Með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til verður gjaldið greitt þegar eigendur færa ökutæki sín til skoðunar á skoðunarstöðvum og er talsvert hagræði í því. Umferðaröryggisgjald er nú innheimt við skoðun ökutækis og hefur þetta fyrirkomulag reynst vel.

Til þessa hefur það fyrst og fremst verið verkefni lögreglunnar að hafa eftirlit með því að fylgt sé reglum um skyldu eigenda ökutækis til þess að færa það til skoðunar. Mjög misjafnt er eftir landshlutum hversu vel lögreglan fylgist með því að óskoðuð ökutæki séu færð til skoðunar og fer það aðallega eftir því hvort mannafli er fyrir hendi til að sinna því verki.

Engum blöðum er um það að fletta að mjög brýnt er, og í þágu aukins umferðaröryggis, að eigendum ökutækja sé veitt aðhald þannig að þeir fylgi þeim reglum sem gilda um vátryggingu og skoðun. Þó svo að hér sé verið að gera tillögu um talsvert hátt gjald vegna vanrækslu á að færa ökutæki til skoðunar verður að skoða það í ljósi þess hver sú hætta er talin vera sem óskoðuð ökutæki, sem ekki eru í lagi, kunna að skapa í umferðinni.

Eins og staðan er nú getur lögreglan samkvæmt 69. gr. umferðarlaga tekið skráningarmerki af ökutæki sem ekki hefur verið fært til skoðunar þegar krafist er. Lögreglan hefur lýst því að hún kjósi að hafa sýnilega löggæslu í umferðinni sem mesta en síður sinna því að leita uppi óskoðuð ökutæki. Verði frumvarpið að lögum mundi lögreglan einungis hafa þau afskipti af óskoðuðum ökutækjum að taka skilyrðislaust skráningarmerki af ökutæki í umferð þegar vanrækt hefur verið að færa það til skoðunar í sex mánuði.

Almenna reglan er að ökutæki skal færa til aðalskoðunar á þriðja ári eftir að ökutækið er skráð í fyrsta sinn, síðan á fimmta ári og árlega eftir það. Í tengslum við frumvarpið er ráðgert að gerðar verði breytingar á þessum reglum þannig að ökutæki væru fyrst skoðuð eftir fjögur ár, en síðan á tveggja ára fresti. Er það til samræmis við það sem gerist almennt í Evrópu.

Til að auka umferðaröryggi er í tengslum við frumvarpið jafnframt stefnt að því að efla vegaeftirlit verulega með aukinni samvinnu lögreglunnar, eftirlitsmanna Vegagerðarinnar og skoðunarstöðva. Þegar er komin nokkur reynsla á slíka samvinnu í átaksverkefnum sem lofa góðu.

Virðulegi forseti. Í skýrslu nefndar um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum, sem skilaði forsætisráðherra tillögum sínum í apríl 2007, er lagt til að sýslumanninum í Bolungarvík verði falin eftirfylgni með því að óskoðuð ökutæki verði færð til skoðunar. Í niðurlagi 3. mgr. er opnað á þann möguleika með því að ráðherra getur sett nánari reglur um álagningu og innheimtu gjaldsins, og að heimilt sé að fela öðru stjórnvaldi innheimtu gjalds í vanskilum.

Helsti ávinningur með frumvarpinu er því að vænta má þess að óskoðuðum ökutækjum í umferð muni fækka verulega og að þetta fyrirkomulag muni almennt leiða til aukins umferðaröryggis.

Frumvarpið var sett til umsagnar á heimasíðu samgönguráðuneytisins og bárust gagnlegar ábendingar.

Virðulegi forseti. Ég vil leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar Alþingis.