Afstaða ríkisstjórnarinnar til aðildarumsóknar að ESB

Mánudaginn 28. apríl 2008, kl. 15:15:12 (6889)


135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

afstaða ríkisstjórnarinnar til aðildarumsóknar að ESB.

[15:15]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Síðustu viku eða svo hefur mikið verið rætt um aðild að Evrópusambandinu í kjölfar skoðanakönnunar sem Fréttablaðið birti um þarsíðustu helgi. Þá kom fram, af hálfu varaformanns Sjálfstæðisflokksins, að ljóst væri að ríkisstjórnin mundi ekki sækja um aðild að Evrópusambandinu á þessu kjörtímabili. Þá kom líka fram, af hálfu formanns Samfylkingarinnar, að ekki væri útilokað að slíkt yrði gert.

Ég vil því, virðulegi forseti, spyrja hæstv. forsætisráðherra um afstöðu ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Mun ríkisstjórnin ekki undirbúa umsókn að Evrópusambandinu á þessu kjörtímabili eða er útilokað að hún taki það mál til athugunar?

Ég vil einnig, virðulegi forseti, inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort allir séu til í þá vinnu að breyta stjórnarskránni, eins og fram hefur komið hjá hæstv. utanríkisráðherra, á þann veg að unnt verði að framselja dómsvald, löggjafarvald og framkvæmdarvald úr landi til að undirbúa hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Er hæstv. ríkisstjórn tilbúin til að beita sér fyrir breytingu á stjórnarskránni til að unnt verði að framselja vald úr landi?