Samræmd neyðarsvörun

Þriðjudaginn 29. apríl 2008, kl. 14:25:53 (6940)


135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[14:25]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Nokkur atriði í ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur gefa tilefni til svara eða skýringa. Svo að ég fari í þetta í öfugri röð vildi ég fyrst nefna að skilgreiningar á alþjónustu eða ekki alþjónustu falla utan við þessi lög, þessi lög sem slík, um neyðarsvörun, taka ekki á því, um það er fjallað í fjarskiptalögum. Íslensku fjarskiptalögin eru byggð á tilskipunum Evrópska efnahagssvæðisins sem hér gilda þar sem m.a. er að finna skilgreiningu á alþjónustu. Án þess að ég fari nánar út í það snýst partur af þeim ágreiningi sem hefur verið á milli símafélaganna og Póst- og fjarskiptastofnunar um það hvar nákvæmlega þessi stigsmunur liggur. En um það erum við ekki að fjalla í nefndarálitinu eða taka afstöðu til þess. Við erum að ýta viðfangsefninu til hliðar út fyrir ramma þessa máls með því að segja: Við látum þennan kostnað falla á ríkið og gerum ekki ráð fyrir að jöfnunargjaldið sé notað til að standa undir þessari þjónustu.

Varðandi það sem var rauði þráðurinn í ræðu hv. þingmanns, þ.e. spurninguna um það hvort þarna ætti að vera opinbert hlutafélag eða ríkisstofnun, er því til að svara að þetta félag er hlutafélag, hefur verið það. Það er rétt að í upphafi voru einkaaðilar með, þeir eru ekki lengur fyrir hendi en hins vegar eru það ýmsir opinberir aðilar sem eiga þetta og ekki eru áform um að breyta því. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel, hefur ekki verið vandamál í sambandi við rekstur þessarar starfsemi og engin ástæða var til að breyta því að mati meiri hluta nefndarinnar.

Hv. þm. nefndi ágreining og árekstra einkaaðila en við erum að leysa úr þeim málum með þeim breytingum sem við leggjum til á frumvarpinu þannig að ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af því að einhver lagaleg spursmál verði um það í framtíðinni.