Samræmd neyðarsvörun

Þriðjudaginn 29. apríl 2008, kl. 14:28:18 (6941)


135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[14:28]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að alþjónustan er skilgreind í póst- og fjarskiptalögum eins og ég sagði reyndar. Það breytir því ekki að ég tel umhugsunarefni hvers vegna neyðarsímsvörunin heyrir ekki undir alþjónustuna. Ég velti fyrir mér í þeim efnum þeim sjónarmiðum sem eru á bak við ýmsar tilskipanir Evrópusambandsins sem eru viðskiptalegs eðlis í meira mæli en góðu hófi gegnir.

Mér finnst alþjónustuskilgreiningin í tilskipuninni og í fjarskiptalögum okkar vera með þeim hætti að það vanti inn í hana. Kannski er þetta enn eitt dæmi um það að við látum tilskipanir fara hér í gegn án þess að skoða þær gagnrýnum augum. Við kyngjum þeim iðulega hráum, leggjumst á bakið og segjum: Evrópusambandið segir að þetta eigi að vera svona, við verðum þá víst að hafa það þannig. En það er ekki svoleiðis. Við höfum rétt á því að gera fyrirvara við þær tilskipanir sem við erum að taka upp og þó að ég sé ekki að mæla fyrir því að við gerum afturvirkan fyrirvara við nákvæmlega þá tilskipun sem hér um ræðir er ég að gera grein fyrir grundvallarsjónarmiði sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði tölum fyrir, og stöndum á því fastar en fótunum, að þjónusta af því tagi sem hér um ræðir eigi eðli málsins samkvæmt að vera opinber þjónusta og um hana eigi að gilda upplýsingalög, starfsmannalög og sérstjórnsýslulög. Það er kjarninn í málflutningi okkar.