Afganistan -- matvæli -- ríkislögreglustjóri -- hvalveiðar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 10:33:22 (7637)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

störf þingsins.

[10:33]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Við höfum rætt allnokkrum sinnum á þessum vettvangi í vetur um málefni Afganistans og veru íslenska friðargæsluliðsins þar. Við höfum m.a. rætt um tillögu okkar vinstri grænna um heimkvaðningu íslenska friðargæsluliðsins frá Afganistan. Í þeirri umræðu höfum við bent á hversu hrikalegt það stríð er sem geisar í Afganistan með öllum þeim afleiðingum sem stríðsrekstur hefur ævinlega í för með sér, svo sem morðum, pyndingum, nauðgunum og hvers konar ofbeldi.

Fyrir ekki löngu síðan var m.a. greint frá því að NATO-menn í Afganistan hefðu verið teknir fyrir að kaupa sér vændi sem setur að sjálfsögðu ljótan blett á starf þeirra og raunverulegan vilja til að láta gott af sér leiða, magnar átökin, tortryggnina og hatrið á milli ólíkra menningarheima og gerir uppbyggingarstarfi erfitt fyrir.

Nýlega var einnig greint frá því í fjölmiðlum að ný rannsókn sendimanns mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sýndi að hermenn NATO-hersins í Afganistan hefðu drepið 200 óbreytta borgara, afganska borgara, frá áramótum og þar að auki hefði herinn fellt um 300 uppreisnarmenn talibana frá upphafi ársins 2008. Það er alveg ljóst að í þessu stríði eins og öllum stríðum eru það almennir borgarar sem verða fyrir barðinu á stríðsrekstrinum.

Við erum aðilar að Genfarsáttmálanum frá 1949 um vernd almennra borgara á stríðstímum og það er ljóst að þeir verða fyrir barðinu á þessu NATO-herliði og þessu NATO-stríði. Með þeim hætti má fullyrða að Ísland sé samábyrgt með öðrum NATO-ríkjum fyrir aðgerðum í Afganistan og að lífi óbreyttra borgara er ekki þyrmt og að við séum sek um að brjóta Genfarsáttmálann frá 1949. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja formann utanríkismálanefndar hvort þetta sé friðargæsla sem íslensk stjórnvöld vilji vinna að og telji sig sæmd af og hvort hann telji ekki að Genfarsamningurinn eigi að eiga við og að við eigum að virða hann.