Afganistan -- matvæli -- ríkislögreglustjóri -- hvalveiðar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 10:42:49 (7641)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

störf þingsins.

[10:42]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég hef áhuga á að spyrja hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur út í miklar yfirlýsingar hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar en þau eru bæði þingflokksformenn í stjórnarflokkum. Um daginn í umræðu um löggæslumál og tollamál á Suðurnesjum réðst hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að embætti ríkislögreglustjóra með mjög afgerandi yfirlýsingu og sagði að skoða þyrfti mjög vandlega að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra í þeirri mynd sem það er. Ég er reyndar alls ekki sammála þessari yfirlýsingu og sagði í þinginu 13. nóvember að ég teldi eðlilegt að styrkja embætti ríkislögreglustjóra. Það eru mjög breyttar aðstæður í okkar samfélag, för fólks yfir landamæri er orðin miklu meiri en áður. Það er alveg ljóst að við þurfum að bregðast við alþjóðlegri glæpastarfsemi og ekki bara við Íslendingar heldur líka aðrar þjóðir. Það er því eðlilegt að embætti ríkislögreglustjóra sem tekur á þessum þáttum, sé sterkt þótt maður útiloki að sjálfsögðu aldrei til framtíðar að færa einhverja verkþætti á milli embætta.

Ég tel að þessi yfirlýsing sé þess eðlis að fá verði fram afstöðu þingflokks Sjálfstæðisflokksins í þessu efni, af því að Sjálfstæðisflokkurinn fer með löggæslumál í landinu og maður getur ekki talað um þau mál af einhverri léttúð. Ég vil því gjarnan spyrja hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur: Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að greiða fyrir áherslum Samfylkingarinnar í löggæslumálum og standa að því að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra í þeirri mynd sem það er? Eða lítur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins á þessa yfirlýsingu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar sem sérstakt léttmeti og ætlar láta hana fara inn um annað eyrað og út um hitt og líta frekar á hana sem hefnd fyrir það að hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason hefur verið að pressa á embættið á Suðurnesjum?