Afganistan -- matvæli -- ríkislögreglustjóri -- hvalveiðar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 10:45:02 (7642)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

störf þingsins.

[10:45]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að leggja mat á þessi síðustu orð hv. þingmanns en það hefur alls ekki staðið til að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra. Hins vegar held ég að mönnum sé að verða meira og meira ljóst að það er ástæða til þess að styrkja það embætti og hafa þar starfsemi sem er ekki hægt að dreifa mjög víða. Menn verða að hafa ákveðna þætti saman þar sem sérfræðiþekking kemur til og mjög eðlilegt að hafa það í embætti ríkislögreglustjóra.

Ég held að það hafi hvergi komið fram í stefnuyfirlýsingum, ekki okkar sjálfstæðismanna og ég hef ekki heyrt að það sé sérstaklega í stefnu Samfylkingarinnar að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra og það er alls ekki í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ég get því satt að segja ekki haft aðra skoðun á þessu máli en þetta sé persónuleg skoðun hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar og hann mun örugglega skýra það betur. Ekki held ég að þarna sé með nokkrum hætti hægt að túlka að þar sé verið að flytja stefnu ríkisstjórnarinnar eða ríkisstjórnarflokkanna.

Ég tek undir orð hv. þingmanns um að auðvitað á ekkert að ræða um þessi mál af léttúð. Það er ástæða til þess að ræða löggæslumál í landinu með yfirvegun og að þar fari menn fram af fullri alvöru þegar verið er að ræða þau mál (Forseti hringir.) og þar á meðal embætti ríkislögreglustjóra.