Afganistan -- matvæli -- ríkislögreglustjóri -- hvalveiðar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 10:49:40 (7644)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

störf þingsins.

[10:49]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir þessa fyrirspurn. Eins og hv. þingmaður rakti þá gaf formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, út yfirlýsingu þess efnis að ráðherrar Samfylkingarinnar styddu ekki ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að gefa út hrefnukvóta, þ.e. fyrir 40 dýr.

Hæstv. ráðherra skýrði mjög vel út hvers vegna þessi yfirlýsing væri gefin. Hún var gefin vegna þess að veiðar á þessum 40 dýrum skipta ekki sköpum fyrir íslenskan efnahag og hafa í reynd sáralítil sem engin áhrif. Hæstv. ráðherra sagði einfaldlega: Hættan er sú að með því að gefa út þennan kvóta sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni við þær aðstæður sem nú eru uppi. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson þekkir það mætavel að afstaða umheimsins til hvalveiða hefur verið nokkuð stíf í þá átt að hvalur sé ekki veiddur. Þjóðir heims hafa tekið nokkuð skýra afstöðu og við höfum haft af því áhyggjur að þessi ákvörðun ógni að einhverju leyti hagsmunum okkar meðan hún skilar okkur ekki neinu.

Það breytir hins vegar engu um að við höfum talað fyrir sjálfbærri nýtingu á auðlindum hafsins. Það talar enginn um það í þessu samhengi. Hér er aðeins talað um að hættan sé sú að með þessari ákvörðun sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er að renna út en vonast til þess að ég geti komið hér að síðar og tekið aðeins þátt í umræðu um löggæslumál.