Lengd þingfundar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 11:12:03 (7654)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

lengd þingfundar.

[11:12]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta er mjög undarleg tilkynning í ljósi nýju þingskapanna og þess málflutnings sem var uppi hafður af aðstandendum þess máls að einn megintilgangur þeirra væri sá að skipuleggja betur þingstörfin. Þetta yrði fjölskylduvænni vinnustaður og næturfundur heyrði sögunni til. Nú er fundur á morgun og þess vegna finnst mér mjög sérkennilegt að forseti skuli þá ekki jafnframt taka það fram að þó að menn ætli sér, ef það gengur, að klára dagskrána þá séu samt einhver tímamörk gefin, þ.e. til dæmis þannig að fundur verði þá aldrei lengur en til miðnættis. Ella sé ég ekki annað en að menn stefni vísvitandi í að brjóta sín eigin fyrirheit og svardaga um það hvernig störfum verði háttað á þingi í anda hinna nýju þingskapa.

Nú liggur fyrir mjög viðamikil dagskrá með stórum og miklum málum sem alveg ljóst er að miklar umræður verða um. Einn þingflokkur hefur, ef ég veit rétt, óskað eftir að nota rétt sinn til tvöföldunar ræðutíma í máli sem hér er á dagskrá þannig að þess hlýtur að vera að vænta að umræður verði miklar og langar í dag. Ég fer eindregið fram á það að forseti (Forseti hringir.) veiti upplýsingar um hvort þess sé að vænta og menn megi treysta því t.d. að fundur standi ekki lengur en til kl. 10 eða í mesta lagi til miðnættis en varla getur verið ætlunin að fara fram yfir. (Forseti hringir.)